„Flug easyJet milli Lundúna og Akureyrar nú í vetur er mjög mikilvægt. Vonandi er þetta upphaf að einhverju öðru og meira, svo miklu máli skiptir þetta fyrir ferðaþjónustuna hér á svæðinu. Einnig íbúa, mikil lífsgæði felast í því fyrir fólk hér um slóðir að hafa þessa þægilegu tengingu við stórborgina sem á margan hátt er miðja heimsins,“ segir Njáll Trausti Friðbertsson, alþingismaður og flugumferðarstjóri.
Miklar væntingar eru bundnar við þá viðleitni breska flugfélagsins easyJet að bjóða upp á reglulegt áætlunarflug milli London Gatwick og Akureyrar nú í vetur. Eins og fram hefur komið í Morgunblaðinu er gott útlit með bókanir í ferðum félagsins sem flýgur til Íslands á þriðjudögum og laugardögum. Önnur ferð félagsins til og frá Akureyri var um helgina og einmitt þá var Njáll Trausti í turninum á Akureyri. Hann hefur setið á Alþingi frá 2016 en grípur stundum í sitt gamla starf. Segist gera slíkt ánægjunnar vegna en einnig í því skyni að viðhalda starfsréttindum sínum.
„Stundum er hringt í mig og ég beðinn að taka vaktir ef einhver forfallast. Að sinna slíku er bara skemmtilegt, flugið hefur alltaf verið stór hluti af lífi mínu,“ segir Njáll.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.