Mega ekki aðeins varpa fram verstu sviðsmyndunum

Otti Rafn Sigmarsson, formaður Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.
Otti Rafn Sigmarsson, formaður Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Ljósmynd/Landsbjörg

„Það gleymist að taka tillit til þess að það er fólk sem að býr við þetta“ segir Otti Rafn Sigmarsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar og félagi í björgunarsveitinni Þorbirni.

Hann biðlar til fjölmiðla að staldra við og íhuga hvaða áhrif fréttaflutningur um eldvirkni á Reykjanesskaganum hafi á íbúa Grindavíkur.

Otti birti í gær færslu á Facebook-reikningi sínum þar sem hann lýsti ástandinu sem óþolandi vegna þess álags sem almennt fylgi jarðskjálftum í kring um byggð í bland við ítrekaðar svokallaðar hamfarafyrirsagnir, sem birtist á frétta- og samfélagsmiðlum. 

Í samtali við mbl.is segir hann ástæðu pistilsins tvíþætta. Annars vegar sé það ákall til fjölmiðla um að fjalla meira um heildarmyndina, en ekki bara verstu útkomuna, og hins vegar til þess að upplýsa bæjarbúa um hvar sé best að finna áreiðanlegar upplýsingar. 

Fréttirnar upplýsandi en ekki fyrirsagnirnar

Hann segir það vissulega hlutverk fjölmiðla að fjalla um mál sem þessi frá öllum hliðum og velta við öllum steinum, en að þess megi gæta að varpa ekki einungis fram verstu sviðsmyndunum.

Otti segir þegar óþægilegt fyrir íbúa að búa við sífelda jarðskjálfta og því sé ekki ofan á það bætandi að að fjölmiðlar varpi fram ítrekuðum hamfarafyrirsögnum og spám. 

Hann vísar í athugasemd Vilhjálms Árnasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, við færsluna sem segir fréttirnar oft upplýsandi, en það sama sé ekki alltaf hægt að segja um fyrirsagnirnar. Fjölmiðlar verði að hafa í huga að oft sé einungis fyrirsögnin lesin eða móti hvað sé lesið úr fréttinni sem skipti sköpum í aðstæðum sem þessum. 

Aðdragandinn lengri en hafi verið málað upp

Otti hefur sjálfur tekist á við þrjú eldgos í sjálfboðastarfi sínu með björgunarsveitinni og minnir á að viðbragðsáætlanir séu til staðar og að viðbragðsaðilar séu viðbúnir til að svara kallinu þegar til þess komi. 

Hann minnist aðdraganda gossins við Litla-Hrút í sumar, sem hafi verið um vikuferli þar sem fréttir voru færðar af kvikunni nálgast yfirborðið, nánast kílómetra fyrir kílómetra. 

„Það var búið að afmarka mjög þröngt svæði þar sem kvikan gat komið upp. Svo bara sat fólk með popp og kók og svo bara kom hún,“ segir Otti og ítrekar að aðdragandinn sé mun lengri en margir hafi málað upp. 

„Ég vil meina það að við höfum meiri tíma til að bregðast við, heldur en einhverjar sekúndur eins og kom fram í morgun,“ segir Otti.

Hann segir að almannavarnir og Veðurstofa Íslands séu ávallt með nýjar og áreiðanlegar upplýsingar, enda séu þar sérfræðingar á vaktinni allan sólarhringinn að fylgjast með mælingum og þróun mála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert