Metri að þykkt og sex milljón rúmmetra stór

Kristín Jónsdóttir.
Kristín Jónsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Talið er að kvikusyllan sem myndast hefur við Þorbjörn sé um einn metri að þykkt og um sex milljón rúmmetrar að stærð.

Þetta sagði Kristín Jónsdóttir, fagstjóri náttúrvöktunar á Veðurstofu Íslands, á upplýsingafundi almannavarna.

Kvikuinnskotin við Þorbjörn eru frábrugðin þeim sem urðu við Fagradalsfjall á þann hátt að þau liggja lárétt í syllum en ekki lóðrétt. Slíkar syllur geta vaxið lengi og orðið mjög stórar án þess að það komi til goss. Syllan þykknar smám saman og dreifir sér til hliðanna.

Hún sagði vísindamenn Veðurstofunnar ekki áður hafa séð jafnkröftuga virkni hjá Þorbirni og að undanförnu.

Ekki er hægt að svara því hvort, hvar og hvenær gos verði en líkurnar á því að hægt væri að svara því aukast með hverjum deginum.

Líklegustu staðirnir ef það kemur til goss eru vestan og norðan við Þorbjörn og að Sýlingafelli. Ekkert bendir til þess að kvika sé nálægt yfirborðinu miðað við stöðuna núna, sagði Kristín einnig.

Frá upphafi jarðskjálftahrinunnar á Reykjanesskaga hafa um 10 þúsund skjálftar mælst.

Víðir Reynisson á upplýsingafundinum.
Víðir Reynisson á upplýsingafundinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ágætlega undirbúin“

Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna, sagði náttúruna vera ófyrirsjánlega en nefndi að strax í janúar 2020 hefðu verið útbúnar áætlanir til að forða almenningi frá hættum. Rýmingaráætlanir hefðu verið gerðar og uppfærðar reglulega.

„Okkar mat er að við séum ágætlega undirbúin og við verðum betur undirbúin með hverjum deginum sem líður,” sagði Víðir.

Kristinn Harðarson á fundinum.
Kristinn Harðarson á fundinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skoða leiðir til að sprauta vatni á hraunið

Kristinn Harðarson, framkvæmdastjóri hjá HS Orku, sagði fyrirtækið hafa unnið í sínum viðbragðáætlunum sem snerust að miklu leyti um hvernig hægt væri að tryggja öryggi starfsmanna og verktaka. Mikilvægt væri að tryggja órofna starfsemi.

Hann sagði að ef til rýmingar kæmi vegna eldgoss myndu vaktmenn rýma Svartsengi en starfseminni yrði fjarstýrt frá Reykjanesvirkjun.

Einnig nefndi hann að fyrirtækið hefði skoðað leiðir til að sprauta vatni á hraun til að geta hugsanlega hægt á hraunstrauminn til að verja orkuverið. 

Hugsanlega væri hægt að setja upp varnarhöft sem gætu beint hraunstraumi í aðrar áttir og varið orkuverið með þeim hætti, sagði Kristinn. 

Jafnvel væri hægt að fergja borholur með malar- og sandfyllingum til að geta komið starfseminni aftur af stað að loknu gosi.

Varavélar myndu taka við

Páll Erland, forstjóri HS Veitna, sagði fyrirtækið hafa undirbúið mögulegt rafmagnsleysi í Grindavík. Varavélar myndu taka við í Grindavík ef ekkert rafmagn kæmi annars staðar frá til bæjarins. Fyrstu vélarnar eiga að koma í dag frá Landsneti.

„Eftir því sem þörf krefur eru til nógu margar vélar sem geta dekkað þessa almennu rafmagnsnotkun í Grindavík sem snýr þá að heimilum og almennum fyrirtækjum og stofnunum," sagði Páll. 

Hvað varðar Fitjar í Reykjanesbæ er fyrirtækið betur sett varðandi flutningskerfi rafmagns og er tengt frá þremur stöðum. Þótt Svartsengi myndi falla út sagði hann að rafmagn kæmi því eftir öðrum leiðum.

Páll sagði ráðlegt varðandi rafmagnsbíla að hafa þá hlaðna á öllum tímum. Ekki væri hægt að hlaða þá ef það kæmi til neyðarástands. 

Hafa rætt um neyðarkyndistöðvar

Hann sagði það geta farið svo að ekkert reyndi á hitaveituna þrátt fyrir að eldgos yrði. Ef svo færi að svartasta sviðsmyndin raungerðist og afhending heits vatns frá Svartsengi myndi hætta alveg, þá væri það mjög stórt viðfangsefni. HS Veitur og HS Orka hefðu tekið höndum saman varðandi mögulegar neyðarkyndistöðvar. Búið væri að skila upplýsingum tengdum því verkefni til yfirvalda. 

Opinn íbúafundur verður í Reykjanesbæ á miðvikudaginn, bætti hann við. Þar verður farið nánar yfir málin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka