Miðað við svörtustu sviðsmynd

Varaaflstöðvarnar tvær eru komnar til Grindavíkur og von á fleiri.
Varaaflstöðvarnar tvær eru komnar til Grindavíkur og von á fleiri. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Hingað eru komnar tvær varaaflstöðvar frá Landsneti, við óskuðum eftir þeim í gær og þeir voru snöggir að koma með þær,“ segir Egill Sigmundsson, sviðsstjóri rafmagnssviðs HS Veitna, um aflstöðvarnar sem nú eru komnar til Grindavíkur. Voru stöðvarnar fluttar frá tengivirki Landsnets í Hrútatungu.

„Þær eru 3,2 megavött í uppsettu afli sem nægir fyrir álagi fyrir íbúðahverfi í Grindavík en gert er ráð fyrir að taka á móti fleiri vélum sem óskað hefur verið eftir frá þeim og við erum búnir að gera klárt fyrir móttöku þeirra í Grindavík,“ heldur Egill áfram.

Þurfi að einangra sig við eitt rými

Segir hann miðað við alls fimm til sex vélar þegar mest verður „og þá erum við að tala um að við þurfum að fara að hita upp hús, þetta er allt miðað við svörtustu sviðsmynd og að ekkert heitt vatn komi frá Svartsengi, þá geti menn farið að hita húsin upp að hluta með rafmagni en eins og komið hefur fram áður eru það bara tvö til þrjú kílóvött sem er auðvitað mjög lítill hiti svo menn þurfa að fara að einangra sig við eitthvert eitt rými, eitt herbergi eða eitthvað álíka, til að verði sæmilegur hiti“, útskýrir Egill.

Egill Sigmundsson sviðsstjóri.
Egill Sigmundsson sviðsstjóri. Ljósmynd/HS Veitur

Hann segir dreifikerfi á hitaveitusvæðinu ekki byggð fyrir rafhitun sem sé kannski ástæðan fyrir því að hægt sé að leysa svona lítið afl í íbúðanotkun.

Aðgerðirnar núna miði að því að sjá bæjarbúum fyrir rafmagni, hvort tveggja til hefðbundinnar lágmarksnotkunar og að gera ráð fyrir að hvert heimili þurfi að notast við rafmagnskyndingu en þá þoli dreifikerfið að hámarki áðurnefnd tvö til þrjú kílóvött á hvert heimili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert