Mikill ótti á meðal Grindvíkinga

Fannar Jónasson, lengst til hægri, á upplýsingafundinum.
Fannar Jónasson, lengst til hægri, á upplýsingafundinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, segir mikinn ótta vera á meðal bæjarbúa vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga.

„Við treystum því áfram að fenginni reynslu að vísindamenn þeir gera sitt allra besta til að búa okkur undir það sem kann að vera í vændum,” sagði Fannar á upplýsingafundi almannavarna.

„Það er mikill ótti heima hjá okkur og kvíði hjá mörgum út af stöðunni eins og hún er, svipað og var kannski í upphafi 2020.”

Hann sagði hingað til ekki hafa gosið í kringum Grindavík en best væri að vera við öllu búin.

„Við búum að ofboðslega flottu öryggisneti allt í kringum okkur,” sagði Fannar jafnframt.

Hann sagði sérstaklega mikilvægt að hlúa að þeim sem minna mega sín, þar á meðal sjúklingum, börnum og öldruðum. Þetta fólk væri hrætt um að vera skilið eftir ef til eldgoss kæmi. Einnig sagði hann mikilvægt að hlúa að fólki af erlendum uppruna.

Brunabótamatið 1.000 milljarðar

Hann sagði mjög mikið í húfi á Suðurnesjum að allt væri gert til að koma í veg fyrir að Svartsengi detti út. Ef talað væri um kostnað í því sambandi þá væri brunabótamat húsnæðis á Suðurnesjunum að verðmæti 1.000 milljarðar króna. Þótt milljarðar eða tugir milljarðra væru settir í að verja þessi mannvirki til að koma í veg fyrir frostskemmdir væri það aðeins lítið brot af heildarbrunabótamatinu. 

„Við treystum kerfinu, við treystum því að allir geri sitt besta,” sagði Fannar jafnframt og bætti við að Grindvíkingar myndu ekki missa móðinn heldur starfa saman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert