„Ég myndi segja að það ætti að vera algerlega ljóst öllum sem fara ofan í Bláa lónið að þessi staða er uppi. Það er mjög mikilvægt að það sé þannig og Bláa lónið geri það ljóst sínum gestum.“
Þetta segir Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur um stöðuna sem er uppi á Svartsengissvæðinu en kvikusöfnunin er bæði hraðari og meiri undir Svartsengi en áður hefur verið að sögn Magnúsar.
Hann segir eðlilegt og sjálfsagt að gestir taki upplýsta ákvörðun um veru sína í lóninu.
Segir hann geta komið að því að lóninu verði lokað og að ef þessi atburðarás magnist þá sé mjög eðlilegt að það gerist.
„Við þurfum að vera viðbúin því þó við séum ekki komin þangað ennþá. Viðbrögð eru rædd stöðugt og þessu velt upp.“
Magnús segir líklegast að það taki töluverðan tíma fyrir kviku að komast upp til yfirborðs fari hún af stað.
„Versta tilfelli eru nokkrir klukkutímar. Ef það sæjust merki um að kvika væri að brjótast upp til yfirborðs þá er komin allt önnur staða og þá yrði svæðið væntanlega lokað og rýmt.
Þá er ég að tala um eins og Bláa lónið og slíkt. Það getur alveg gerst á næstunni að aðstæður þróist þannig að það sé ekki talið óhætt að nýta Bláa lónið.“
Hann segir þó ekki í takt við neitt sem við höfum séð að kvika komi upp okkur algjörlega að óvörum.
Hann segir orkuverið í Svartsengi í mikilli hættu ef það gýs á þessu svæði sem og Bláa lónið en hann segir Grindavík ekki í beinni hættu.
„Það er mikilvægt að átta sig á því að ef það gýs norðvestan við Þorbjörn þá rennur það hraun ekki inn í Grindavík. Það getur farið til sjávar vestan við Grindavík miðað við þá atburðarás sem nú er í gangi. Ef þyrfti að gera varnargarð sem héldi hraunrennslinu frá Grindavík ætti að gefast tími til þess sömuleiðis. Sjálf Grindavík er ekki í beinni hættu.“