Óttast að bændur hreinlega gefist upp

Sú staða sem blasir við mörgum bændum á Íslandi er uggvænleg. Bændasamtökin tala um neyðarástand sem geti leitt til þess að bændur gefist upp á næstunni. Ástæðurnar eru vel þekktar og íþyngja fleirum en bændum. Miklar hækkanir á aðföngum og enn meiri vaxtahækkanir. Einna alvarlegust er staðan meðal kúabænda en margir bændur réðust í umtalsverðar fjárfestingar sem meðal annars miðuðu að því að auka velferð dýra.

Það neyðarástand sem nú er komið upp í atvinnugreininni lýsir sér meðal annars í nautakjötsskorti og þá var 22 þúsund færri lömbum slátrað í haust samanborið við árið áður.

Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtakanna, er gestur Dagmála Morgunblaðsins í dag og ræðir þar meðal annars þá alvarlegu stöðu sem blasir við í þessari undirstöðuatvinnugrein.

Samkvæmt lögum eiga tekjur bænda að miðast við iðnaðarmenn og aðra sambærilega aðila á vinnumarkaði. Hagfræðingar samtaka bænda hafa reiknað út að mánaðarlaun bónda ættu að vera á bilinu 900 þúsund til milljón. Vigdís segir að í mörgum tilvikum séu árslaunin nær því að vera tvær milljónir.

Þann 20. október kom ríkisstjórnin á fót starfshópi þriggja ráðuneytisstjóra til að meta þá stöðu sem bændur standa frammi fyrir og koma með tillögur að aðgerðum. Vigdís vonast eftir hraðri afgreiðslu frá hópnum en viðurkennir líka að hún óttist að þær tillögur sem fram munu koma séu til lengri tíma en ekki sú skyndihjálp sem nauðsynleg er.

Hún segir jafnframt blasa við að miðað við óbreytt ástand fjölgi þeim bændum sem hreinlega gefist upp.

Þátturinn í heild sinni er aðgengilegur fyrir áskrifendur Morgunblaðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert