Stal rafrænum skilríkjum og sveik út fé

Rafrænum skilríkjum Auðuns Inga Ásgeirssonar var stolið.
Rafrænum skilríkjum Auðuns Inga Ásgeirssonar var stolið. Samsett mynd

Bíræfinn þjófur nýtti sér tæknina til að svíkja út fé eftir að hann stal veski úr bíl í Borgartúni. Gerði hann það með því að fara í símafyrirtæki, eyða rafrænum skilríkjum og stofna ný undir nýju símanúmeri á kennitölu eigandans með hjálp stolins ökuskírteinis úr veskinu.

Í framhaldinu fór hann í heimabanka eigandans og hafði upp á pin-númerum og tók 110 þúsund krónur af kreditkorti auk þess að sækja um bankalán. Þá notaði hann ökuskírteinið til þess að svíkja verkfæri út úr Húsasmiðjunni fyrir um hálfa milljón króna. 

Bankasvikin náði hann að gera á um 20 mínútum. Að þeim tíma liðnum áttaði starfsmaður Hringdu sig á því að hann hafði gert mistök og lokaði hinum nýju rafrænu skilríkjum.  

Var ekki trúað í fyrstu 

Auðun Ingi Ásgeirsson, 32 ára flugvirki er sá sem lenti í þjófnaðinum í sumar. „Ég lenti í því í Borgartúni í júlí að rúða á bílnum mínum var brotin og veskið tekið,“ segir Auðun. 

Þjófurinn notaði rafræn skilríki til að komast inn í heimabanka …
Þjófurinn notaði rafræn skilríki til að komast inn í heimabanka og hafa upp á pin númerum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þann 18. júlí klukkan 16.20 fékk hann svo tilkynningu þess efnis að rafræn skilríki hefðu verið afturkölluð. Fimm mínútum síðar fékk hann svo aðra tilkynningu í símann um að ný rafræn skilríki hefðu verið stofnuð á öðru símanúmeri.

„Í sms-i þar sem tilkynnt var um ný skilríki er uppgefinn sími Auðkenni. Ég hringdi þangað en þeir sögðust ekkert geta gert og sá sem við mig ræðir getur í raun ekki sagt neitt. Ég held að hann hafi ekki alveg trúað mér enda trúði ég því varla sjálfur að einhver væri að stela rafrænu skilríkjunum mínum,“ segir Auðun. 

Um það leyti fékk hann tilkynningu frá Íslandsbanka um að nýr aðili hefði skráð sig inn á heimabankann sem hann komst sjálfur ekki inn á því hann hafði ekki rafræn skilríki á eigin reikning. Í framhaldinu hringdi hann strax í neyðarnúmer Íslandsbanka og náði að loka öllum kortum.

Vantaði rafræn skilríki til að afturkalla rafræn skilríki 

„Daginn eftir hringdi svo öryggisstjóri Auðkennis í mig og tilkynnti mér að starfsmaður Hringdu hefði uppgötvað mistök sín og lokað fyrir rafrænu skilríkin. Þegar ég spurði af hverju starfsmaður Auðkennis hefði getað ekki lokað þegar ég hringdi degi áður þá fékk ég þau svör að ég hefði þurft að nota rafræn skilríki til að loka rafrænu skilríkjunum,“ segir Auðun um leið og hann hlær við, hugsandi um þessa fáránlegu stöðu sem hann var í. 

Hringt frá Húsasmiðjunni tveimur mánuðum síðar

Áður en rafrænu skilríkin voru afturkölluð, náði þjófurinn að taka 110 þúsund krónur af kreditkortareikningi hans auk þess sem hann sótti um lán hjá Arion banka. Þá fékk þjófurinn lánuð verkfæri hjá Húsasmiðjunni fyrir um 500 þúsund krónur með hjálp skilríkjanna. 

„Ég fékk svo tveimur mánuðum síðar símhringingu frá Húsasmiðjunni þar sem ég var spurður hvenær ég ætlaði að skila verkfærunum,“ segir Auðun sem kom eðlilega af fjöllum.

Taka ber fram að þjófurinn notaði einungis ökuskírteinið til að fá verkfærin lánuð en ekki rafræn skilríki.  

Þjófurinn stal verkfærum fyrir um hálfa milljón króna.
Þjófurinn stal verkfærum fyrir um hálfa milljón króna. Kristinn Magnússon

 Ekki fengið tjónið bætt 

Að sögn Auðuns hefur hann ekki fengið tjónið bætt. Bæði hefur hann verið í samskiptum við Hringdu og Auðkenni vegna málsins. 

„Í pósti frá Auðkenni fékk ég að heyra að þeir myndu heyra í mér mjög fljótlega en nú hafa tveir og hálfur mánuður liðið,“ segir Auðun. Svipaða sögu er að segja af Hringdu sem var í sambandi við hann upp á bætur en hann hefur ekkert heyrt. 

Þá telur Íslandsbanki sig ekki bera skyldu á að bera tjónið.  

„Eftir á að hyggja þá slær það mann aðeins hversu auðvelt þetta var. Þegar ég fór líka að hugsa þetta betur þá hefði viðkomandi getað opnað bara heimabankann aftur ef starfsmaður Hringdu hefði ekki áttað sig á mistökunum og afturkallað skilríkin,“ segir Auðun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert