Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Bláa lónsins, segir að eitthvað sé farið að bera á afbókunum í lónið og að óöryggi sé á meðal starfsfólks. Hún segir Bláa lónið fylgja almannavörnum í einu og öllu. Það sé almannavarna að ákveða hvort og hvenær eigi að rýma svæðið.
„Þeir leiða nauðsynlegan undirbúning fólks, til að tryggja velferð og öryggi fólks komi til flókinna aðstæðna,“ segir Helga í samtali við mbl.is.
Mikið hefur verið fjallað um hættuna sem stafar af mögulegu eldgosi á Svartengissvæðinu og hvaða áhrif það gæti haft á Bláa lónið.
„Við höfum upplýst þá gesti sem koma til okkar um þær jarðhræringar sem eru í gangi og höfum haft þann háttinn á að tala við þá þegar þeir koma til okkar,“ segir Helga.
Hún segir enn fremur að þau séu ekki með tengiliðaupplýsingar fyrir alla gesti lónsins, en að þau sendi á alla þá gesti sem þau hafa upplýsingar um með þriggja daga fyrirvara.
Spurð hvort mikið hafi verið um afbókanir segir Helga: „Við erum byrjuð að finna fyrir því að einhverju leyti.“
Hvernig upplýsið þið fólk sem kann hvorki ensku né íslensku?
„Í flestum tilfellum eru gestir sem kunna ekki ensku hluti af stærri hópi og því vanalegast leiðsögumaður til staðar sem miðlar upplýsingunum, ef svo er ekki þá er oft notast við þýðingarforrit, en þetta hefur ekki verið vandamál hingað til,“ segir hún.
Hversu margir gestir heimsækja Bláa lónið dag hvern?
„Það fer auðvitað eftir mánuðum og vikum en yfir daginn eru um það bil 2.000-2.500 manns á þessum árstíma.“
Hafið þið æft rýmingar nýlega?
„Það var gerð æfing í lok síðasta árs, en við erum með hermunaræfingar þar sem við skiptum svæðinu niður í tíu mismunandi starfstöðvar og þar eru öryggisfulltrúar sem fara í þessar æfingar. Þar eru setta upp sviðsmyndir og fólk þjálfað eftir stöðvum.“
Helga sagðist ekki vera alveg viss hve langan tíma æfingin tók, en vísaði til fundar almannavarna fyrr í dag þar sem að áætlað var að Bláa lóninu gæfist nokkra klukkustundir til rýmingar. „Okkar viðbragð mun vera vel undir því.“
Nú eru margir sem koma í Bláa lónið með rútum, eruð þið með einhverjar viðbragðsáætlanir ef til þess kæmi að það þyrfti að ferja fólk frá lóninu?
„Við berum ábyrgð á að koma fólki út af okkar svæði og þá tekur ábyrgð lögreglustjórans við að koma fólki á þau svæði sem talin eru örugg.“
Hvernig er líðan meðal starfsfólksins?
„Við erum búin að eiga við þessar jarðhræringar síðustu árin og það er ákveðið óöryggi meðal starfsmanna og þá sér í lagi þeirra sem búa á Grindavík og eru með þessar jarðhræringar yfir sér allan sólarhringinn. Við viljum taka vel utan um fólkið okkar og undirbúa það eins og hægt er fyrir mögulega rýmingu,“ segir Helga.
„Það er verið að tala við sérfræðinga og við erum með daglega upplýsingapósta sem fara til allra starfsmanna og starfsmenn fá þjálfun í gegnum sérstakt kennslukerfi, svo að eitthvað sé nefnt.“
Helga segir að það sé almannavarna að ákveða hvenær skal rýma.
„Og við höfum valið að fylgja almannavörnum í einu og öllu og þeir leiða nauðsynlegan undirbúning fólks, til að tryggja velferð og öryggi fólks komi til flókinna aðstæðna. Ef vísbendingar væru um almennilegt gos þá væri alltaf farið í rýmingu. Við erum öll með það sameiginlega markmið að tryggja öryggi og velferð starfsmanna og gesta okkar.“