Aflögunarmælingar sýna að landris heldur áfram á svæðinu norðvestan við fjallið Þorbjörn og eru vísbendingar um aukinn hraða á þenslu frá því á föstudaginn. Hefur land nú risið um 7 sentímetra frá 27. október.
Þetta kemur fram í nýjum upplýsingum á vef Veðurstofunnar.
Aflögunin verður vegna kvikusöfnunar í syllu á um 5 km dýpi en samkvæmt uppfærðum líkanreikningum er syllan orðin tvöfalt stærri en þær fjórar syllur sem hafa myndast við Þorbjörn frá árinu 2020. Þá er innflæðið í sylluna metið fjórfalt hraðar en fyrri innskot við Þorbjörn, eða um 7,5 m3/s.
mbl.is greindi frá því á laugardaginn að GPS-mælingar á svæðinu í kringum Þorbjörn virtust sýna stökk í tilfærslum, þ.e. að landrisið væri orðið hraðara. Náttúruvársérfræðingur Veðurstofunnar taldi þá of snemmt að lesa í mælingarnar.
Um 1.300 skjálftar hafa mælst á Reykjanesskaga síðasta sólarhring. Þrír skjálftar hafa mælst yfir 3 að stærð, sá stærsti var 3,6 að stærð og voru upptök hans um 3 km norðaustan við Þorbjörn.
„Á meðan að kvikusöfnunin heldur áfram má gera ráð fyrir skjálftavirkni á Reykjanesskaga vegna þess að kvikuinnskotið veldur aukinni spennu á svæðinu.“