Síðasta sólarhring hafa mælst um 900 jarðskjálftar á Reykjanesskaga, flestir á svæðinu milli Þorbjörns og Sýlingafells. Stærsti skjálftinn var 2,9 að stærð og reið hann yfir upp úr klukkan sjö í morgun.
Jarðskjálftavirknin er áfram á sama dýpi og áður.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofunni. Fyrr í dag greindi mbl.is frá því að landris mældist áfram við Þorbjörn, miðað við nýjustu gögn úr gervihnöttum.
Sömu gögn sýna engin merki um kvikusöfnun í Eldvörpum eða við Sýlingrafell, austan Grindavíkurvegar, þar sem skjálftavirkni hefur mælst síðustu daga.
Landið hefur risið nokkuð jafnt frá því atburðarásin hófst þann 27. október, þó svo að hröðun á ferlinu hafi mælst á milli daga. Áfram er sagt að búast megi við hviðukenndri skjálftavirkni á meðan að kvikusöfnun er í gangi.