Óttarr Arnar Halldórsson stórkaupmaður lést á líknardeild Landspítalans þann 31. október síðastliðinn, 82 ára að aldri.
Hann fæddist á Akureyri þann 7. nóvember 1940, sonur Ísafoldar Teitsdóttur hjúkrunarfræðings og Halldórs Jónssonar stórkaupmanns.
Óttarr fluttist ungur suður og ólst upp í vesturbæ Reykjavíkur. Hann lauk verslunarprófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 1958. Þá hélt hann í nám til London og útskrifaðist úr The London School of Foreign Trade árið 1960.
Óttarr var umsvifamikill í viðskiptum og fasteignum, ásamt því að sitja í hinum ýmsu stjórnum í gegnum árin. Árið 1976 stofnaði hann heildverslunina Ísflex ehf. sem hann rak í yfir 40 ár. Áður starfaði hann hjá Almennum tryggingum og í heildverslun föður síns, Halldóri Jónssyni ehf.
Óttarr var um áratugaskeið virkur þátttakandi í starfi Frímúrarareglunnar og félagi í stúkunni Eddu. Á sínum yngri árum æfði hann júdó af kappi og sat í stjórn Júdódeildar Ármanns um árabil.
Áhugamál Óttars voru ferðalög bæði innanlands og erlendis, siglingar, jöklaferðir og skíði. Hann var mikill bílaáhugamaður, tefldi mikið og hafði unun af því að hlusta á djass og dixílandtónlist.
Eftirlifandi eiginkona Óttars er Ingrid Halldórsson. Dætur þeirra eru Esther Angelica og Íris Kristína.
Útför Óttars verður í Háteigskirkju föstudaginn 17. nóvember kl. 15.