Ekki staðfest að matvælunum hafi verið dreift

Matvælalagerinn fannst í kjallara í húsnæði við Sóltún 20.
Matvælalagerinn fannst í kjallara í húsnæði við Sóltún 20. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur metur nú hvort mál er varðar ólöglegan matvælalager Vy-Þrifa í kjallara í Sóltúni 20 í Reykjavík, eigi heima á borði lögreglunnar.

Tómas G. Gíslason, framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlitsins, segir þetta nú til skoðunar hjá lögfræðingum eftirlitsins.

Heilbrigðiseftirlitið hefur lokið skýrslu um málið en bíður eftir andmælum frá Vy-Þrifum.

Mörg tonn af matvælum fundust í kjallaranum innan um rottuskít og -þvag. Voru aðstæður óheilnæmar, að mati heilbrigðiseftirlitsins, sem hefur nú fargað matnum.

Engar kvartanir borist

Í bréfi heilbrigðiseftirlitsins til Vy-Þrifa, sem mbl.is hefur undir höndum og fjallaði um fyrr í dag, segir að heilbrigðiseftirlitið hafi ástæðu til að ætla að matvælum úr kjallaranum hafi verið dreift til annarra matvælafyrirtækja. Í svarbréfi til eftirlitsins höfnuðu Vy-Þrif þeim ásökunum alfarið.

Í samtali við mbl.is í gær sagði Tómas eftirlitið ekki hafa fengið staðfest að matvælin hefðu farið í sölu eða aðra dreifingu.

Í kjölfar þess að hafa fengið bréf heilbrigðiseftirlitsins afhent leitaði mbl.is viðbragða hjá eftirlitinu til að kanna hvort það hafi enn ástæðu til að ætla að matvælin hefðu farið í dreifingu.

Upplýsingafulltrúi Reykjavíkurborgar, sem svaraði fyrir heilbrigðiseftirlitið, kvaðst ekki sjá ástæðu til að draga fyrri ummæli til baka þó ekkert hefði fengist staðfest um dreifingu matvælanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka