Fjárhagsáætlun borgarinnar fer til seinni umræðu

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokks tókust …
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokks tókust um fjárhagsstöðu borgarinnar á fundi borgarráðs í dag. Samsett mynd

Engar breytingatillögur voru samþykktar við fjárhagsáætlun meirihlutans frá 2024 til ársins 2028 á fyrri umræðutíma á borgarráðsfundi fyrr í dag. Fjárhagsáætlunin fer þá til seinni umræðu sem verður 5. desember.  

Meirihlutinn felldi breytingartillögur frá Sjálfstæðisflokknum, Sósíalistaflokknum og Flokki fólksins.

Hagræðingar á kostnað skattgreiðenda

Á fundi borgarráðs gagnrýndi Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, fulltrúa meirihlutans fyrir að tala um gríðarlegan viðsnúning í rekstri borgarinnar og sagði að meintar hagræðingar borgarinnar væru fyrst og fremst á kostnað skattgreiðenda, en ekki í aðgerðum til að minnka bákn borgarinnar og að draga úr launatengdum gjöldum.

Dagur benti á að íbúafjöldi í Reykjavík hafi farið ört vaxandi og sagði íbúa borgarinnar hafa fjölgað um heilt Seltjarnarnes í fyrra og að Reykjavík væri að laða til sín mun fleiri íbúa en önnur sveitarfélög.

„Við erum að vaxa út úr vandanum, halda vel utan um fjármálin, en við erum að veita góða þjónustu, þetta er galdurinn við að reka gott samfélag,“ sagði Dagur.

Hildur benti þá að hækkun á launatengdum gjöldum sé ekki einungis vegna íbúafjölgunar eða eðlilegra hækkunar heldur að starfsmannafjölgun væri langt á undan fjölgun íbúa og að ekki eitt einasta svið innan borgarinnar hafi fækkað um einn starfsmann í þessum hagræðingaraðgerðum.

Mantra að borgin sé illa rekin

Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata sagði suma halda fast í þá „möntru“ að Reykjavíkurborg væri illa rekin og sagði að ekki væri litið til heildarsamhengisins og að meðal annars væru skuldir á hvern íbúa í Reykjavík lægri en í öðrum sveitarfélögum „sem flest eru rekin af Sjálfstæðisflokknum“. 

Í andsvari sínu sagði Hildur að íbúar í Reykjavík væru um 140.000 talsins og að „það væri á engan hátt hægt að bera saman sveitarfélög sem eru ekki nema brot af þeirri stærð“ og að „eitt sveitarfélag er í þeirri stöðu að greiða sér milljarða í arðgreiðslur úr sínum B-hluta fyrirtækjum, sem gerir stöðu borgarinnar mikið betri“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka