Nokkuð fjölmennur hópur mótmælir nú fyrir utan Ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu. Fólkið veifar palestínskum fánum og mótmælir ríkisstjórn Íslands, sér í lagi snúa mótmælin að Bjarna Benediktssyni utanríkisráðherra.
Hópurinn tók vel undir þegar forsöngvarar hans kyrjuðu hendinguna: „Fordæmið þjóðarmorð!“
Þá hafa heyrst hróp á borð við: „Burt með Bjarna“ og „burt með Katrínu“, þó hið síðarnefnda hafi ekki hlotið jafn góðan hljómgrunn viðstaddra.
Hart var sótt að Bjarna Benediktssyni utanríkisráðherra á óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í gær, vegna hjásetu Íslands við ályktun Jórdaníu um vopnahlé á Gasa á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í þar síðustu viku.
Þær Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar, beindu báðar fyrirspurnum sínum til utanríkisráðherra og gagnrýndu ríkisstjórnina fyrir að vera ekki samstíga í afstöðu sinni til atkvæðargreiðslunnar.