Hvítabjörn hvergi að finna

Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug yfir Langjökul í dag eftir að tilkynning …
Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug yfir Langjökul í dag eftir að tilkynning barst um möguleg spor hvítabjarnar. mbl.is/RAX

Engin ummerki um hvítabjörn fundust við leit lögreglunnar á Vesturlandi og þyrlu Landhelgisgæslunnar í dag. Í gær barst lögreglunni tilkynning um mögulegar ferðir hvítabjarnar á svæðinu í kringum Ok, vestan við Langjökul.

Þetta staðfestir Kristján Ingi Hjörvarsson, settur aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vesturlandi í samtali við mbl.is

„Við fengum tilkynningu um spor sem þóttust líkjast svoleiðis sporum, en það er svo sem erfitt að greina þetta því þau aflagast við bráðnun,“ segir Kristján Ingi. 

„Til öryggis fengum við Landhelgisgæsluna til þess að fljúga þarna hring og því lauk í dag eins og við bjuggumst við.“

Að sögn Kristjáns er ekki þörf á frekari aðgerðum að svo stöddu, en komi nýjar upplýsingar fram verði málið tekið upp að nýju. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert