Karlmaður hefur verið ákærður af embætti héraðssaksóknara fyrir alvarleg og gróf kynferðisbrot gegn tveimur stúlkum undir lögaldri sem hann komst í samband við í gegnum Snapchat. Voru stúlkurnar fyrst í þeirri trú að þær væru að kaupa af manninum áfengi, en hann stakk svo upp á að þær myndu greiða fyrir með kynferðislegum greiðum.
Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 11. ágúst og var gæsluvarðhaldið í síðasta mánuði framlengt til 17. nóvember og hefur Landsréttur staðfest það.
Í gæsluvarðhaldsúrskurðinum, sem birtur hefur verið á vef Landsréttar, kemur fram að málið hafi fyrst komið á borð lögreglu eftir tilkynningu frá barnavernd 29. júlí. Ræddi lögreglan við fyrri stúlkuna sem skýrði frá samskiptum sínum við manninn og sagðist hafa kynnst honum í gegnum Snapchat þar sem hann væri með áfengissölu.
Sagðist stúlkan hafa ætlað að kaupa af honum áfengi, en hann hafi boðið henni að greiða honum með kynferðislegum greiðum og fá aukalega greitt.
Kvaðst hún hafa hitt manninn tvisvar. Í fyrra skiptið hafi þau farið í sleik og hún fengið vodkaflösku og 10 þúsund krónur, en í seinna skiptið hafi hún ætlað að eiga við hann munnmök gegn 70 þúsund krónum.
Lýsti hún því við lögreglu að hafa viljað hætta við munnmökin eftir að þau hófust, en hann viljað hafa samræði við hana gegn 150 þúsund krónum. Sagðist hún hafa frosið, en hann fengið sáðlát. Áttu bæði skiptin sér stað í bifreið hans að sögn stúlkunnar. Þá tjáði stúlkan lögreglu jafnframt frá því að vinkona hennar hefði einnig hitt manninn í kynferðislegum tilgangi.
Síðari stúlkan gaf skýrslu í Barnahúsi og greindi frá því að hafa hitt manninn í þrígang og að hann hafi í öll þrjú skiptin haft samræði við hana gegn 50 þúsund krónu greiðslu í hvert skipti. Fyrri tvö skiptin hafi þau ekið að heimili mannsins, en í síðasta skiptið hafi þau verið í bifreið hans.
Í gæsluvarðhaldsúrskurðinum kemur fram að ljóst sé að stúlkurnar búi yfir upplýsingum um manninn sem ekki væri nokkur leið fyrir þær að vita nema að hafa verið á staðnum. Þannig lýsti þær því að hann hafi sótt þær og keyrt um.
Fyrri stúlkan sagði hann meðal annars hafa tekið út 90 þúsund krónur úr hraðbanka því hann hafi ekki verið með nóg til að greiða henni 150 þúsund krónur. Eftirlitsmyndavélar sýna bifreið hans á umræddum stað og bankaupplýsingar að hann hafi tekið út umrædda upphæð á þessum tíma. Einnig hafi mátt þekkja stúlkuna í bílnum á eftirlitsmyndavél.
Þá gat síðari stúlkan lýst heimili mannsins í smáatriðum, auk þess sem eftirlitsmyndavélar staðsettu bifreið hans á þeim tíma sem stúlkan lýsti.
Lífsýni voru tekin úr bifreið mannsins og voru þau send til rannsóknar. Fannst meðal annars sæðisblettur í gólfi bifreiðarinnar sem innihélt blöndu úr DNA-sniði úr bæði manninum og fyrri stúlkunni. Þá leiddi greining á öðru sínu úr aftursæti bifreiðarinnar blöndu úr DNA-sniða úr manninum og seinni stúlkunni.
Maðurinn hefur við yfirheyrslur annað hvort neitað sök eða ekki viljað tjá sig. Sagðist hann ekki kannast við fyrri stúlkuna, en sagðist hafa hitt þá síðari í eitt skipti til að afhenda henni áfengi. Hann sagðist reyndar mögulega hafa rætt við fyrri stúlkuna á Snapchat, en að aðgangi hans hafi verið rænt stuttu síðar og því væru samskiptin ekki hans. Þá neitaði hann öllum kynferðislegu samskiptum við þær.
Maðurinn sagðist hins vegar hafa tekið út 90 þúsund krónurnar til að greiða vændiskonu í Grafarvogi og nefndi konuna á nafn. Þegar lögreglan ræddi við hana sagðist hún hafa selt honum kynlífsþjónustu, en ekki þann dag sem um var að ræða, heldur tæplega viku áður en hann tók peninginn út.
Í úrskurðinum kemur fram að maðurinn sé undir sterkum grun um að hafa ítrekað brotið kynferðislega gegn börnum og eru meint brot hans sögð sérstaklega gróf, ekki einungis vegna þess að þau snúa að afar grófri ítrekaðri háttsemi mannsins, heldur beinast brot hans gegn börnum í mjög viðkvæmri stöðu. Báðar stúlkurnar séu ungar að aldri og byrjaðar að neyta áfengis og annarra vímuefna og voru þær tilbúnar að selja líkama sinn til miklu eldri karlmanns til að fjármagna neyslu sína. Segir í úrskurðinum að það auki á alvarleika málsins.