Dagur B. Eggertsson borgarstjóri er ánægður með þann jákvæða viðsnúning sem felst í nýrri fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir næsta ár.
Í áætluninni er gert ráð fyrir því að rekstarniðurstaða A-hluta verði jákvæð um 591 milljón króna. Áætlun ársins 2024 gerir ráð fyrir að rekstrarniðurstaða A- og B-hluta verði jákvæð um 7,6 milljarða og EBITDA verði 56,1 milljarður.
„Við ætluðum okkur stóra hluti á þessu ári, viðsnúning upp á níu milljarða en í útkomuspánni eru þetta tíu milljarðar. Það þýðir jafnframt að við erum að leggja fram áætlun fyrir næsta ár sem er í plús. Við erum að skila afgangi ári áður en bjuggumst við miðað við fimm ára planið sem við lögðum fram í fyrra,“ segir Dagur, sem ræddi við blaðamann að loknum fundi í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem hann kynnti sína 11. fjárhagsáætlun.
Borgarstjórinn nefnir einnig að veltuféð frá rekstri sé að snúast við og hækka í áætluninni. Árangur sé að nást varðandi hagræðingu, auk þess sem tekjuvöxtur sé töluverður vegna mikillar fjölgunar borgarbúa, lítils atvinnuleysis og mjög mikils fjölda starfandi fólks.
Á fundinum greindi hann einmitt frá því að íbúafjöldi borgarinnar hefði verið kominn í 143.039 manns 1. nóvember síðastliðinn.
Spurður hvort gjaldskrárhækkanir eða hækkanir á fasteignagjöldum sé að finna í áætluninni segir Dagur svo ekki vera. Hlutföllin séu þau sömu og áður.
„Við erum fyrst og fremst að tryggja að gjaldskrárnar lækki ekki miðað við verðlag, þannig að þær hækka miðað við verðlagsþróun. Nýja sorpflokkunarkerfinu fylgja hins vegar breytingar og þar breytast gjaldskrár aðeins umfram verðlag þar sem ekki fylgdu fjármunir til að innleiða þessa breytingu, sem var í raun lögbundin. Okkur sýnist á lauslegum samanburði að þar muni Reykjavík hækka minna heldur en flest önnur sveitarfélög því að okkur hefur tekist að gera þetta á hagkvæman hátt,“ svarar hann.
Spurður hvernig borgin kveðst ætla að tækla launamálin í komandi kjarasamningum segist Dagur vonast eftir góðu samtali. Mjög gott væri fyrir íslenskt samfélag að ná langtímasamningum til að auka fyrirsjáanleikann.
„Ef ég horfi til baka á þessi 15 ár sem ég hef verið hérna í meirihluta er alveg ótrúlegt hvað þetta hefur verið róstusamur tími í efnahagsmálum. Maður er í raun vanari því að þurfa að takast á við einhver óvænt áföll heldur en að sigla lygnan sjó,“ segir Dagur og bendir á að næstu kjarasamningar muni skipta miklu máli í von um að koma á aukinni ró.
„Mér fannst gríðarlega jákvætt sem verkalýðssinna að Alþýðusambandið kemur núna sameinað að borðinu. Ég held að það sé ákveðinn lykill í því að ná breiðu samkomulagi um hvaða línur verða lagðar.“
Á fundinum talaði borgarstjórinn um að draga þyrfti úr fjárfestingum tengdum A-hluta. Spurður nánar út í þau verkefni nefnir Dagur að hægja þurfi á framkvæmdum við Grófarhúsið, sem er endurgerð á útibúi Borgarbókasafnsins, og Hafnarhúsinu.
Einnig frestast öll íþróttatengd verkefni um eitt til tvö ár. Dagur vill ekki nefna dæmi um þau og vísar í heildstæða forgangsröðun í íþróttamálum sem byggist á mati á verkefnum. „Ég ætla ekki að taka eitt umfram annað, þetta er svona yfir línuna en við höldum í heiðri stóru forgangsröðina engu að síður.”
Dagur segir borgina almennt vera á réttri leið en þörf sé á fjárhagslegum styrk til að takast á við stækkandi borg. Grunnur hafi verið lagður að því í fyrra með fimm ára aðgerðaáætlun í fjármálum.
„Stóru tíðindin í dag eru að við erum á plani og gott betur. Við erum ári á undan með ýmis fjárhagsleg markmið sem við ætluðum ekki að ná fyrr en 2025. Ég er stoltur af áætluninni, ég er stoltur af þessu meirihlutasamstarfi. Af því að þetta er að öllum líkindum síðasta fjárhagsáætlun sem ég legg fram sem borgarstjóri, þá er ég stoltur af því að afhenda keflið svona,“ segir hann.