Nagdýr áttu greiðan aðgang undir vörudyr og upp um ólokuð niðurföll í geymsluhúsnæði í Sóltúni 20 þar sem mikið magn matvæla fannst við óheilsusamlegar aðstæður í september, eins og mbl.is greindi fyrst frá.
Greinileg ummerki voru um nagdýr innan um matvælin, bæði rottuskítur og -þvag.
Fulltrúa leigutaka var kunnugt um að meindýr, bæði rottur og mýs, hefðu verið innan um matvælin um tíma. Svo virðist sem viðkomandi hafi staðið í trú um að það hefði ekki áhrif á öryggi matvælanna.
Heilbrigðiseftirlitið hefur ástæðu til að áætla að matvælum hafi verið dreift til matvælafyrirtækja.
Þetta kemur fram í bréfi, sem mbl.is hefur fengið afhent, frá heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur til Vy-Þrifa, fyrirtækisins sem hafði geymsluna á leigu. Bréfið er dagsett 28. september.
Þess ber að geta að Davíð Viðarsson, eigandi þrifafyrirtækisins, er stórtækur veitingamaður og á m.a. Vietnam market og 40% hlut í WOKON Mathöll ehf.
Í bréfi heilbrigðiseftirlitsins segir að húsnæðið hafi verið innsiglað við aðgerðir heilbrigðiseftirlitsins og fulltrúi leigutaka upplýstur um að óheimilt væri að fara inn í húsnæðið án samþykkis heilbrigðiseftirlitsins.
Þá kemur einnig fram að heilbrigðisráðuneytið fari fram á að fá upplýsingar um alla dreifingu á matvælum úr Sóltúni 20.
Í svarbréfi til heilbrigðiseftirlitsins frá lögfræðingi Vy-Þrifa, sem mbl.is hefur einnig fengið afhent, hafna Vy-Þrif alfarið að hafa staðið að dreifingu matvæla úr Sóltúni 20.
Segir þar jafnframt að þrifafyrirtækið hafi undanfarna mánuði veitt tiltekna þjónustu í tengslum við sölu á rekstri austurlenskra veitingastaða og verslana til nýrra rekstraraðila.
Fólst þjónustan m.a. í standsetningu veitingastaða og verslana fyrir nýjan rekstraraðila, þ.á.m. flutning og förgun nokkurs magns matvæla og annarra rekstrarmuna.
Í svarbréfinu segir að þjónusta þrifafyrirtækisins hafi falið í sér milligöngu um förgun matvæla og hafi matvælin jafnframt verið merkt að þeim skyldi fargað.
„Munirnir eru í eigu fyrrum rekstraraðila sem hinir nýju rekstraraðilar hugðust ekki nýta í starfsemi sinni. Í tengslum við flutninginn þurfti eðlilega að gæta sjónarmiða um að draga úr matarsóun og förgun verðmæta,“ segir í svarbréfinu.
„Af þeim sökum var ákveðið að flytja umrædda rekstrarmuni til bráðabirgða í leiguhúsnæði umbjóðanda míns við Sóltún 20 í Reykjavík þar sem skipulega var farið í gegnum munina með framangreind sjónarmið að leiðarljósi. Matvælum skyldi jafnan fargað en reynt að koma öðrum rekstrarmunum sem hægt væri að nýta í viðeigandi not.“