Úlfar hefur heimild til að loka Bláa lóninu

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur heimild til að loka starfsemi Bláa …
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur heimild til að loka starfsemi Bláa lónsins. Samsett mynd

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir að lögreglustjórinn á Suðurnesjum hafi heimild til þess að loka Bláa lóninu ef hættuástand kallar á það. Þá bendir hún á að það sé skylda Bláa lónsins að upplýsa gesti um það að til rýmingar gæti komið. 

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, sagði í samtali við RÚV í gær að hann teldi óábyrgt að halda úti starfsemi í Bláa lóninu. Hefur hann samkvæmt orðum dómsmálaráðherra heimild til að loka starfseminni. 

Guðrún bendir á að við séum á óvissustigi en ekki hættu- eða neyðarstigi í þessu samhengi.

„Við erum að fylgjast með stöðunni frá klukkutíma til klukkutíma. Okkar færustu vísindamenn segja að við munum hafa einhverja klukkutíma ef til goss kæmi. Við vitum ekki hve langan tíma en vísindamenn segja að það sé nægjanlegur tími til þess að rýma þetta svæði ef við förum frá óvissustigi yfir á hættustig,“ segir Guðrún.

Margir sérfræðingar að stíga fram 

Aðrir vísindamenn hafa sagt að tíminn geti verið styttri. Er slíkum vangaveltum ýtt til hliðar?

„Það eru margir sérfræðingar að stíga fram og lýsa hugsanlegri atburðarás. Veðurstofa Íslands veitir upplýsingagjöf til almannavarna og enginn annar. Almannavarnir ríkisins eiga í mjög nánu samstarfi og samtali við Veðurstofuna. Við munum að öllum líkindum fá fyrirvara til að rýma þetta svæði,“ segir Guðrún.

„Hvort Bláa lónið eigi að vera opið eða ekki þá legg ég áherslu á það að sú starfsemi sem er á þessu svæði að hún sé með góða upplýsingagjöf. Það er nauðsynlegt að sá rekstraraðili upplýsi sína viðskiptavini um það að óvissustig sé í gangi á svæðinu og það gæti hugsanlega komið til rýmingar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert