Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann á tuttugasta aldursári í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás, eignaspjöll og brot gegn vopnalögum.
Maðurinn var 17 ára og því ólögráða þegar hann framdi brotin. Hann játaði sekt sína fyrir dómstólnum.
Dómurinn skiptist í tvær ákærur en fyrri ákæran snýr að atburðum sem áttu sér stað aðfaranótt sunnudagsins 11. júlí 2021, þar sem ákærða er gefið að sök að hafa veist að manni, ásamt félaga, við frisbígolfvöll.
Maðurinn hlaut ýmsa áverka eftir árásina, en árásin er talin hafa verið tilefnislaus.
Seinni ákæran snýr að eignaspjöllum og vopnalagabroti, en aðfaranótt laugardagsins 12. febrúar 2022 hafði ákærði í vörslum sínum úðavopn og kylfu. Síðar sama kvöld á ákærði að hafa slegið í útidyrahurð með kylfunni með þeim afleiðingum að rúður brotnuðu.
Ákærða er gert að sæta fangelsi í 30 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dómsins að telja haldi ákærði almennt skilorð.
Auk þess þarf hann að láta frá sér úðavopnið og greiða fórnarlambi líkamsárásirnar 350.000 kr. auk 482.112 kr. í málskostnað.
Hann þarf einnig að greiða verjanda sínum 482.112 kr. og 42.996 kr. í annan sakarkostnað.