Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir stefnu ríkisstjórnarinnar skýra og að ríkisstjórnin taki undir kröfu um vopnahlé á Gasa, í samtali við mbl.is að ríkistjórnarfundi loknum í dag.
Fjölmennur hópur safnaðist fyrir utan Ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu í dag, en fólk veifaði þar palestínskum fánum og kyrjaði meðal annars „Fordæmið þjóðarmorð“.
Spurð hvort slík mótmæli hreyfi við stefnu ríkisstjórnarinnar segir Katrín afstöðuna enn skýra.
„Stefnan er algjörlega skýr og við höfum talað fyrir henni. Það hefur til dæmis komið skýrt fram í því sem við höfum verið að segja núna undanfarna viku. Við köllum eftir vopnahlé, við tökum undir kröfu um vopnahlé,“ segir Katrín.
„Við köllum eftir því að möguleg brot á alþjóðalögum og þar með talið á mannúðarlögum séu rannsökuð og þar með talið árás Ísraels á flóttamannabúðir, sem hafa verið hvað mest til umræðu,“ segir Katrín.
Spurð um ósamræmi á fullyrðingum forsætisráðherra og utanríkisráðherra, Bjarna Benedikssonar, um rannsókn á árás Ísraels á flóttamannabúðir í Gasa, segir Katrín hann einnig hafa kallað eftir slíkri rannsókn.
Í síðustu viku vakti það athygli þegar Bjarni virtist ekki tilbúinn að samþykkja fullyrðingu blaðamanns norska ríkisútvarpsins, NRK, um að árás hefði verið gerð á flóttamannabúðir í Jabaliya á Gasasvæðinu.