„Besta ráðið að forðast brattlendi“

Frá skíðasvæðinu í Hlíðarfjall á Akureyri þar sem fallið hafa …
Frá skíðasvæðinu í Hlíðarfjall á Akureyri þar sem fallið hafa snjóflóð. mbl.is/Þorgeir

Veðurstofa Íslands varar við snjóflóðahættu í Eyjafirði en nokkur snjóflóð hafa fallið í Hlíðarfjalli, í Súlum og í Hörgárdal.

„Þetta eru annars vegar náttúruleg snjóflóð og svo tvö af mannavöldum sem fjallaskíðahópur setti af stað í Hlíðarfjalli í gær,“ segir Heiður Þórisdóttir, sérfræðingur á snjóflóðavakt Veðurstofunnar, í samtali við mbl.is.

Heiður segir að myndast hafi hrím ofan gömlum snjó á síðustu vikum og síðan hafi snjóað ofan á þetta hrím sem gerir það að verkum að hrímið verði að veiku lagi undir nýja snjónum. 

„Virknin sem við höfum verið að sjá er í innanverðum Eyjafirði, í Hlíðarfjalli, í Hörgárdalnum og í Súlum. Við höfum ekki fengið tilkynningar um snjóflóð af þessari stærð í öðrum landshlutum. Þetta virðist vera staðbundið vandamál en það er samt ekkert útilokað að svipaðar aðstæður geti verið annars staðar á landinu,“ segir Heiður.

Vera vakandi fyrir ummerkjum um snjóflóðahættu

Á Austurlandi horfir aðeins öðruvísi við að sögn Heiðar. Þar hefur ekki verið eins kalt né eins mikill útgeislun yfir nóttina og í Eyjafirði. „Trúlega eru minni líkur á að þar sé grafið yfirborðshrím en það gæti samt verið á einstaka stöðum. Á Tröllaskaga hefur ekki snjóað mikið nýlega og þar myndu líklega minni snjóflóð falla,“ segir Heiður.

Heiður skorar á fólk að vera vel vakandi ef það er að ferðast á fjöllum. „Besta ráðið er að forðast brattlendi og vera vakandi fyrir ummerkjum um snjóflóðahættu,“ segir Heiður og beinir því til fólks að senda Veðurstofunni tilkynningar ef það verður vart við snjóflóð, ef það rekst á merki um óstöðugleika þegar það er skíðum, sleðum eða rjúpnaveiðum, t.d. „wúmp“-hljóð eða sjái sprungumyndun undan skíðum eða snjósleðum.

Töluverð hætta í Hlíðarfjalli

Á vef Hlíðarfjalls segir:

„Töluverð hætta. Snjóþekjan í Púðurbakka og Mannshrygg er nokkuð víða óstöðug eða frekar óstöðug í bröttum brekkum. Snjóflóð geta fallið við lítið álag á snjóþekjuna, sér í lagi í bröttum brekkum. Við sérstakar aðstæður geta fallið miðlungsstór og einstaka stór náttúruleg snjóflóð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka