Búið er að setja upp hæla fyrir varnargarð vegna hugsanlegs goss nálægt Svartsengi. Þá hafa stjórnvöld þegar átt í viðræðum við verktaka um að fá fullnægjandi tæki til að byggja slíkt virki. Mun ódýrara er að reisa varnargarð heldur en nýja virkjun í Illahrauni.
Þetta sagði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, á upplýsingafundi í Reykjanesbæ í kvöld. Var hann spurður að því hvers vegna framkvæmdir á varnargörðunum væru ekki þegar hafnar og hvort það væri vegna nokkurra „peningamála“ hjá stjórnvöldum.
Víðir svaraði að fyrst þyrfti að hanna garðinn en að sú vinna væri þó á lokametrunum.
„Það er búið að setja upp hæla á því svæði sem er áætlað að garðurinn verði. Það er búið að tala við verktaka um hvort hægt sé að fá vélar og tæki, því þarna duga ekki nein minniháttartæki, það eru örfáar jarðýtur í landinu nógu stórar til að vinna í þessum aðstæðum. Það þarf stærstu gerðir af beltagröfum og stærstu gerðir af bílum,“ sagði hann.
Þá var Víðir einnig spurður að því hvort ástæðan fyrir því að framkvæmdir væru ekki hafnar væri sú að það væri ódýrara að byggja nýja virkjun. En HS Orka rekur orkuver í Illahrauni við Svartsengi, sem gæti orðið fyrir tjóni í ef gýs.
„Það er ekkert komið að því að taka peningaákvörðunina, þannig ég veit ekki hvernig það verður, en til að setja hluti í samhengi þá kostar þessi varnargarður þrjá milljarða en […] bókfært verð virkjunarinnar 54 milljarðar,“ sagði Víðir.
„Það er ekki hægt að byrja að moka fyrr en búið er að ákveða hvað nákvæmlega á að gera og það er það sem er á lokametrunum næstu sólarhringa.“