Langdýrustu seðlarnir í íslensku seðlasafni Freys Jóhannessonar seldust ekki á uppboði hjá uppboðshúsinu Bruun Rasmussen í Lyngby í gær. Safnið þykir einstakt.
Einn af dýrustu seðlunum, fimm ríkisdalir frá 1801, var verðlagður á 300-400 þúsund danskar krónur eða 6-8 milljónir íslenskra króna, en talið er að aðeins þrír slíkir seðlar séu til.
Á sama verðbili var stór 100 krónu seðill frá 1904 sem talið er að aðeins fjórir seðlar séu eftir af og 50 króna seðill frá 1907 sem talið er að aðeins tveir seðlar séu til af. Þrír 50 krónu seðlar frá 1925, sem verðlagðir voru frá 100-150 þúsund danskra króna, seldust ekki á uppboðinu. Aðrir þrír mjög sjaldgæfir 50 krónu seðlar frá 1916, sem verðmetnir voru á 220-280 þúsund danskra króna, seldust ekki líkt og tveir stórir 100 krónu seðlar, sem einnig voru verðlagðir á bilinu 220-280 þúsund danskra króna, eða á nærri 4,5-5,5 milljónir íslenskra króna.
Nokkrir dýrir seðlar seldust í lok uppboðsins. Þar á meðal var safn af nýrri seðlum, frá 10 krónum og upp í fimm þúsund krónur frá árinu 1981 í sérstakri svartri möppu frá Seðlabanka Íslands. Áætlað verð var þrjú þúsund danskar krónur, en safnið fór á 60 þúsund danskar krónur, eða 1,2 milljónir íslenskra króna. Sama má segja um annað sex seðla safn með seðlum frá tíu krónum til fimm þúsund króna frá árunum 1965-1971, sem allir voru með númeraröðinni 0000023. Það safn var metið á þrjú þúsund danskar krónur en seldist á 40 þúsund danskar krónur eða rúmlega 800 þúsund íslenskar.
Annað sex seðla safn frá 1960 með seðlum frá fimm krónum til 1.000 króna seldist á 60 þúsund danskar krónur, en hafði verið metið á fimm þúsund danskar krónur.