Engin hraunflæðilíkön gerð síðustu vikur

Horft yfir Bláa lónið og í átt að Þorbirni. Hægra …
Horft yfir Bláa lónið og í átt að Þorbirni. Hægra megin á myndinni, fjær undir skugga skýja, hefur landrissins mest gætt. mbl.is/Hákon Pálsson

Engin hraunflæðilíkön hafa verið gerð fyrir almannavarnir frá því jarðhræringa fór að gæta þann 27. október, til að spá fyrir um hvernig hraun myndi flæða kæmi það upp norðvestur af Þorbirni.

Þetta kemur fram í svari almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra í dag, við fyrirspurn sem mbl.is sendi deildinni á sunnudag.

Segir í svarinu að í kjölfar jarðhræringanna árið 2021 hafi verkfræðistofunni Verkís, ásamt öðrum, verið falið að gera „greiningu á innviðum og tillögur að varnaraðgerðum vegna mögulegs hraunrennslis frá völdum sviðsmyndum um gosstaði og goslengd“.

Skilaði samantekt í maí

Tekið er fram að hópurinn hafi verið stofnaður í mars sama ár, með fulltrúum Verkís, Háskóla Íslands, Veðurstofu Íslands og verkfræðistofunni Eflu. Í maí á þessu ári, rúmum tveimur árum síðar, hafi hópurinn skilað því af sér sem þá hafði verið tekið saman.

„Ein af sviðsmyndunum sem hópurinn vann var hvernig hægt væri að verja Svartsengi með varnargörðum, vegna hraunflæðis.“

Segir enn fremur að ekki hafi þótt ástæða til að keyra aftur hraunflæðilíkön eftir eldgosið við Litla Hrút, sem hófst í júlí á þessu ári.

„Ástæðan er að búið var að keyra þær sviðsmyndir sem verið er að horfa á í dag.“

Teikningar af mögulegum varnargörðum

Hafi hraunflæðilíkön verið gerð við keyrslu þeirra sviðsmynda, hafa þau að minnsta kosti ekki fengist upp gefin frá almannavörnum.

Nokkrar teikningar sem gerðar voru af mögulegum varnargörðum við Svartsengi hafa aftur á móti verið afhentar, eins og mbl.is fjallaði um fyrr í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert