Upplýsingafundur vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga hófst í Stapa Hljómahöll klukkan 20 í kvöld. Fundargestir sem blaðamaður ræddi við eru misáhyggjufullir en þó flestir byrjaðir að gera ráðstafanir.
Fundurinn er haldinn á vegum almannavarnanefndar Suðurnesja, utan Grindavíkur. Um 260 bæjarbúar eru mættir á fundinn.
Ef svo fer að versta sviðsmynd raungerist og eldgos hefst við virkjunina í Svartsengi gæti það stefnt hitaveitu fyrir um 31 þúsund manns í hættu.
Stefán Árni Stefánsson fundargestur kveðst í samtali við mbl.is hafa „temmilegar“ áhyggjur af því að fyrrnefnd sviðsmynd raungerist. Hann vonar það besta en býr sig undir það versta.
„Ég er að undirbúa það að koma upp rafmagnshitun þannig að ég geti haldið húsinu heitu og vonandi losnað við frostskemmdir af þeim völdum. Svo er maður farinn að huga að því hvernig maður ætlar að hafa vatnsbirgðir til þess að geta notað salerni og haft neysluvatn,“ segir hann í samtali við mbl.is.
„Ég er eins og aðrir bæjarbúar að fylgjast með stöðunni og átta mig á því hvað sé í gangi,“ segir Jón Guðlaugsson, annar fundargestur, í samtali við mbl.is.
Hann kveðst einnig vera byrjaður að gera ráðstafanir.
Fulltrúar frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Veðurstofunni, HS Orku, HS Veitum verða með framsögur og gefst fundargestum tækifæri til að spyrja spurninga í lok fundar.
Meðal þeirra sem ávarpa fundargesti eru Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra, Víðir Reynisson, yfirlög regluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, Kristín Jónsdóttir, deildarstjóri og jarðskjálftafræðingur á Veðurstofunni, og Páll Erland, forstjóri HS Veitna.