Lilja Ósk Magnúsdóttir, verkefnastjóri forvarna- og félagsmála hjá Tækniskólanum, hlaut í dag hvatningarverðlaun Dags gegn einelti við athöfn í Hólabrekkuskóla í Breiðholti. Lilja tók við verðlaununum úr hendi Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, og Ásmundar Einars Daðasonar, mennta- og barnamálaráðherra.
Lilja, sem hefur starfað hjá Tækniskólanum sem verkefnastjóri forvarna- og félagsmála frá áramótum, segir það Guðna forseta að þakka að hún starfi nú hjá skólanum og því skemmtilegt að hann skyldi veita verðlaunin.
„Hann kom í skólann á forvarnardeginum í fyrra og þá var ég með hinsegin fræðslu sem að hann kom inn í. Hann átti nú bara að vera í fimm mínútur, en hann ætlaði aldrei að fara,” segir hún kímin og bætir við:
„Guðni kom mér á kortið, bara af því að hann var svo lengi hjá mér í fræðslu þá vissi fólk hvað ég væri að gera, að ég væri hinsegin fræðari. Þannig að ég þakka honum fyrir það,“ segir Lilja sem er einnig fræðari hjá Samtökunum'78. En að erindinu loknu kom skólameistari Tækniskólans, sem hafði fylgt Guðna um skólann, til hennar og bauð henni að starfa hjá skólanum.
Lilja segir verðlaunin mikinn heiður fyrir hana. Spurð hvort hún vinni markvisst að því að uppræta einelti segir hún:
„Ég ein er aldrei að fara að uppræta fordóma, einelti og útskúfun, við gerum það saman, þá á ég við samfélagið allt og skólinn allur.“
En í tilnefningu Lilju til verðlaunanna segir:
„Verkefnin sem hún vinnur byggjast að miklu leyti á samskiptum og fræðslu til ungs fólks og að miðla boðskap um betra samfélag og mannréttindi. Lilja Ósk er einstaklega flink að tala við fólk á jafnréttisgrundvelli. Hún leggur mikla alúð í störf sín og henni hefur tekist að uppræta fordóma og einelti af slíkri list, að samfélagið er betra samfélag, fyrir hennar störf.
Samstarfsfólk hennar hjá Tækniskólanum, stærsta framhaldsskóla á Íslandi, þar sem fjölbreyttur nemendahópur stundar nám, hefur tekið eftir greinilegum áhrifum eftir að Lilja Ósk hóf störf hjá skólanum: í breyttri umræðu og hegðun nemenda, bæði í skólanum og á viðburðum Nemendasambandsins. Hún á virkilega skilið að vera heiðruð fyrir sitt framlag við að uppræta einelti og útilokun.”
Það er fagráð eineltismála hjá Menntamálastofnun sem velur verðlaunahafa úr innsendum tilnefningum. Í rökstuðningi fagráðsins segir:
„Okkur finnst skemmtilegt að viðtakandi verðlaunanna í ár sé starfsmaður í framhaldsskóla þar sem áhersla á vinnu gegn einelti hefur verið sýnilegri í grunnskóla fremur en framhaldsskóla. Á tímum þar sem minnihlutahópar svo sem hinsegin og trans börn verða í auknum mæli fyrir aðkasti og einelti þá finnst okkur mikilvægt að þau eigi sér talsmann innan framhaldsskóla kerfisins.“
Lilja segir að oft þurfi ekki annað en að vera sýnilegur og taka samræðurnar. Það sé þannig kostur að hún sé á staðnum og aðgengileg þeim nemendum sem til hennar vilja leita og komi ekki einungis inn í skólann með erindi sem fræðari. Þannig hefur henni tekist að nýta reynslu sína úr fyrra starfi, sem fræðari hjá Samtökunum '78.
„Tækniskólinn er svo ofboðslega fjölbreyttur. Við erum með fólk sem er að læra allt milli himins og jarðar. Við erum með þverskurð af samfélaginu í tækniskólanum, það eru tvö þúsund manns sem koma í skólann á hverjum degi,“ segir Lilja og verkefnin því fjölbreytt.
Hún segist þó hafa unnið mikið með hinsegin félagi skólans, sem ber heitið Heiður. „Það er eitt öflugasta félagið í skólanum, þau hittast á hverjum einasta mánudegi. Þvílíkt öflugt hinsegin félag.“
Í sumar tók Lilja þátt í hinsegin göngunni með félaginu.
Saman sóttu þau um styrk, sem þau fengu, og voru með atriðið „Mér finnst regn gott“ í göngunni. Þá buðu þau öðrum framhaldsskólum að taka þátt í atriðinu en Lilja segir markmið félagsins að skapa öruggt umhverfi fyrir alla.