„Full ástæða að bíða ekki boðanna“

Páll var með erindi á upplýsingafundi almannavarna á Suðurnesjum, utan …
Páll var með erindi á upplýsingafundi almannavarna á Suðurnesjum, utan Grindavíkur, í Reykjanesbæ fyrr í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Páll Erland, forstjóri HS Veitna, segir í samtali við mbl.is að HS Veitur geri allt í sínu valdi til þess að tryggja það að fólk á Suðurnesjum geti lifað eðlilegu lífi hvað varðar rafmagnsnotkun ef til eldgoss kæmi sem myndi stöðva starfsemi virkjunar í Svartsengi. 

Páll var með erindi á upplýsingafundi almannavarna á Suðurnesjum, utan Grindavíkur, í Reykjanesbæ fyrr í kvöld þar sem hann sagði mikilvægt að hver íbúð myndi ekki nota meiri en 2,5 kW af raf­orku­ til raf­kynd­ing­ar ef virkjunin í Svartsengi væri ekki starfræk. Dreifikerfi rafmagns í Reykjanesbæ myndi ekki ráða við mikið meira.

Spurður að því hvort að hann óttist það að fólk myndi nota fleiri en eitt hitunartæki á íbúð svarar hann:

„Já, ég hef það. Það sem fólk þarf að hafa í huga er að hugsa um samheldnina í samfélaginu ef á reynir.“

Víðir Reynisson, Kristinn Harðarson og Páll Erland á fundinum í …
Víðir Reynisson, Kristinn Harðarson og Páll Erland á fundinum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eru með bor til reiðu en bíða eftir leyfi

Eins og kom fram á fundinum þá sér virkjun HS Orku í Svartsengi um að tryggja alla kaldavatnsupptöku fyrir Suðurnes og því er undirbúningur hafinn við að tryggja neysluvatn frá vatnsbóli við Árnarétt í Garði. 

„Það er þekkt að þetta er gott vatnstökusvæði og er innan vatnsverndarsvæðis. Það sem við erum að vonast til er að leyfið til að fá að hefja boranir fáist fljótt vegna þess að það er þegar bor til reiðu, síðan tekur einhvern tíma að koma upp viðeigandi dælum og öðrum búnaði til þess að tengja við vatnsveituna,“ segir Páll.

Spurður að því hvort að nauðsynlegt sé að gera vatnsbólið klárt til vatnstöku óháð því hvort að það gjósi í þessari hrinu svarar hann því játandi.

„Við teljum að miðað við þessa stöðu sem er núna, þær upplýsingar sem vísindamenn hafa gefið um að við séum komin inn í jafnvel áratuga óróatímabil, þá sé full ástæða að bíða ekki boðanna og koma upp varavatnsbóli fyrir íbúanna á Suðurnesjum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert