Garðabær stefnir á Kópavogsleiðina

Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar. Málið mun koma inn á borð …
Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar. Málið mun koma inn á borð bæjarstjórnar í næstu viku. mbl.is/Arnþór

Stefnt er að því að breyta fyrirkomulagi leikskólamála í Garðabæ í átt að þeirri leið sem Kópavogur tók upp í haust. Áætlað er að breytingarnar verði innleiddar frá og með komandi áramótum.

Fela tillögur sem liggja nú fyrir bæjarstjórn það í sér að  reynt verði að stytta viðveru barna á leikskólum. Verður það gert með því að hámarka viðveruna við 40 klst. á viku. Gefa á verulegan afslátt af dvalartíma upp að 37 klst. á viku, en leikskólagjald mun hækka fyrir þá sem nýta sér lengri tíma.

Afsláttur ef lengra frí er tekið

Einnig verður veittur afsláttur af leikskólagjöldum velji foreldrar að taka sér lengra orlof en fjórar vikur að sumri og þá verður sérstök skráning í skólana fyrir börn í vetrar- og jólafríum. Einnig verður lokunartími leikskólanna lengdur í kringum páska.

Greint er frá þessu í fundargerð bæjarráðs Garðabæjar og í tilkynningu frá bænum, en þar segir að markmiðið sé velferð barna, starfsfólks og að tryggja stöðugleika í starfi leikskólanna.

Fer fyrir bæjarstjórn í næstu viku

Tillögur vinnuhóps um leikskólamál í Garðabæ voru í gær samþykktar í bæjarráði og vísað til bæjarstjórnar. Fram kemur að tillögurnar séu samtals fimmtán og fara þær fyrir bæjarstjórnarfund í næstu viku.

Í tilkynningu bæjarins segir að dvalartími barna á Íslandi sé einn sá lengsti á Norðurlöndum og mikilvægt sé að auka gæðatíma barna með fjölskyldum sínum og stytta viðveru þeirra á leikskólum. Tekið er fram að tillögurnar „fela því í sér að foreldrar geta valið um sveigjanlegri dvalartíma barna á leikskólum og geta valið lengd hvers dags“.

Það á við um dvalartíma frá 20 til 40 klst. á viku, en sem fyrr segir eru 40 klst. hámarksdvöl.

Núna er afgreiðslutími leikskóla frá klukkan 7.30 til 17.00, en börn þurfa að taka fjögurra vikna sumarleyfi. Er hámarksdvalartími samkvæmt gjaldskrá 9,5 klst. á dag, eða 47,5 klst. á viku. Gera tillögurnar því ráð fyrir styttingu upp á 7,5 klst. á viku miðað við lengsta dvalartímann.

Garðabær ætlar með þessu að feta í fótspor Kópavogs sem …
Garðabær ætlar með þessu að feta í fótspor Kópavogs sem gerði sambærilegar breytingar í haust. mbl.is/Sigurður Bogi

Gjaldskráin hækkar fyrir síðustu klukkustundirnar

„Gjaldskrá bæjarins fyrir leikskóladvöl mun einnig taka breytingum, en hún verður ákvörðuð samhliða fjárhagsáætlun bæjarins sem kynnt verður fyrir áramót. Búast má við því að verulegur afsláttur verði veittur af dvalartímum frá 37 tímum á viku og allt niður í 20 tíma. Áfram verður veittur systkinaafsláttur og tekjutengdur afsláttur til foreldra,“ segir í tilkynningu bæjarins.

Er þetta útskýrt aðeins nánar í fundargerð bæjarráðs: „Í nýrri gjaldskrá verður 38 klst. leikskólavistun á viku sama fjárhæð og í gildandi gjaldskrá. Gjaldskráin hækkar fyrir næstu tvær klst. (39 og 40) en lækkar frá 37 klst. miðað við núverandi gjaldskrá.“

Fjögurra daga auka frí um páska

Leikskólar verða opnir til klukkan 16.30 á mánudögum til fimmtudaga, en á föstudögum munu leikskólar loka klukkan 16.00. Sérstaklega þarf að skrá börn í vistun frá klukkan tvö til fjögur á daginn.

Til viðbótar við þetta verða leikskólar lokaðir frá föstudegi vikuna fyrir dymbilviku fram að þriðjudegi eftir páska, en það eru fjórir almennir vinnudagar.

Markmiðið að tryggja stöðugleika í starfinu og farsæld barna

Í tilkynningu bæjarins er tiltekið að leikskólastarf í bænum standi nú á tímamótum og að mikilvægt sé að skoða það „sérstaklega það sem snýr að velferð barna og mannauði“. Í haust hafi verið erfitt að manna leikskólana sem skyldi og beita hafi þurft fáliðunarreglu oftar en áður.

Vinnuhópur hafi verið skipaður í vor af stjórnendum leikskóla, leikskólafulltrúum og sviðstjóra fræðslu- og menningarsviðs. Hópurinn skilaði drögum til leikskólanefndar sem vann tillögurnar áfram og voru þær lagðar fyrir bæjarráð í gær sem samþykkti að vísa þeim til bæjarstjórnar sem tekur afstöðu til þeirra í næstu viku.

Markmið þeirra er að bæta enn frekar skipulag og starfsumhverfi leikskóla í Garðabæ þannig að tryggja megi stöðugleika í starfinu, farsæld barna og vellíðan starfsfólks. Samhliða þessum breytingum verður farið í sérstakt átak til að fjölga starfsfólki á leikskólum Garðabæjar,“ segir í tilkynningunni um markmið þessara aðgerða.

Breytingarnar eiga að taka gildi í byrjun næsta árs.
Breytingarnar eiga að taka gildi í byrjun næsta árs. mbl.is/Sigurður Bogi

Kemur í kjölfar skattahækkana og aðhalds

Í síðustu viku var tilkynnt um að Garðabær ætlaði að hækka álögur á íbúa bæjarins með hækkun útsvars, en það fer úr 13,92% upp í 14,48% á næsta ári. Verður bærinn þar með síðasta sveitarfélag höfuðborgarsvæðisins til að fara yfir 14% múrinn og ekki lengur það sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu sem er með lægsta útsvarið. Samhliða þessu var tilkynnt um aðhaldsaðgerðir hjá bænum sem áttu að spara 500 milljónir árlega.

Kópavogur fór svipaða leið í haust

Í sumar tilkynnti Kópavogsbær að fara ætti í sambærilegar aðgerðir í haust. Fór bærinn þá leið að hafa fyrstu sex tíma hvers dags gjaldfrjálsa, en fyrir lengri dvalartíma hækkuðu gjöldin. Áður en breytingin tók gildi voru aðeins 1% barna í sex klst. eða styttri tíma á dag á leikskólum Kópavogs. Sagði Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri að tillögurnar væru til að bregðast við mönnunarvanda.

Eftir að breytingarnar tóku gildi voru 19% barna í Kópavogi í sex klukkustundir eða skemur. Fóru meðaldvalastundir úr 8,1 klst. niður í 7,5 klst.

Ekki voru þó allir á eitt sáttir með þessar breytingar og kom meðal annars fram gagnrýni um að þetta kæmi sér illa fyrir fólk í fullri vinnu og var vísað til þess að á sínum tíma hafi þótt jafnréttismál að tryggja dagvistun og þar með atvinnuþátttöku kvenna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert