Áætlað er að rekstrarafgangur í A- og B- hluta Mosfellsbæjar nemi 945 milljónum króna árið 2024. Útkomuspá 2023 gerir ráð fyrir rekstrarafgangi í fyrsta skipti í fjögur ár.
Fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar var lögð fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn í dag. Kemur þetta fram í tilkynningu frá bæjarstjórninni en þar segir að heildartekjur séu áætlaðar á 21.476 milljónum króna og þar af séu áætlaðar útsvarstekjur 11.424 milljónir.
Tekjur af byggingarétti eru áætlaðar um 600 milljónir króna og nýframkvæmdir næsta árs um 4,9 milljarðar króna, að ófrádregnum kostnaði.
Útkomuspá fyrir árið 2023 gerir ráð fyrir rekstrarafgangi fyrsta skipti síðan 2019 og veltufé frá rekstri verður jákvætt um 2.097 milljónir, þ.e. um 10% af heildartekjum.
Álagningarhlutfall fasteignaskatts A lækkar til að koma til móts við hækkun fasteignamats. Álagningarprósenta fasteignaskatts atvinnuhúsnæðis lækkar einnig en gert er ráð fyrir því að útsvar verði óbreytt, eða 14,74%.
Segir í tilkynningunni að hækkun á gjaldskrám verði til samræmis við breytingar á verðlagi. Ætluð íbúafjölgun í Mosfellsbæ í ár er 2,6% og því gert er ráð fyrir að íbúar verði um 13.753 í byrjun árs 2024.
Í fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir því að Mosfellsbær verði áfram með lægstu gjöldin í leikskólum á höfuðborgarsvæðinu en í dag greiða foreldrar 28.284 kr. fyrir átta tíma vistun með fæði.
Bærinn ætlar enn fremur að greiða niður dagvistun hjá dagforeldrum þannig að foreldrar greiði jafnhátt gjald hjá dagforeldrum og á leikskólum til að jafna aðstæður barna. Þá er gert ráð fyrir að börn fædd 1. ágúst 2023 eða fyrr komist inn í leikskóla haustið 2024.
Til að koma til móts við fjölgun barnafólks í sveitarfélaginu verður byggður nýr og 1.680 fermetra leikskóli í Helgafellshverfi. Áætluð verklok eru 1. maí 2025.
Þá verður einnig unnið að heildstæðri uppbyggingu íþróttasvæða og á næsta ári verður meðal annars farið í að endurbyggja aðalvöll Varmárvalla.
Árið 2024 verður hafist handa við uppbyggingu 89.000 fermetra verslunar-, þjónustu- og athafnasvæðis Korputúns við Korpúlfsstaðaveg sunnan Blikastaða.
Á landi Blikastaða er fyrirhuguð 9000 manna íbúðabyggð sem tengja mun sveitarfélagið betur við höfuðborgarsvæðið á grunni bættra almenningssamgangna með tilkomu Borgarlínu. Í landi Blikastaða verða ný leik- og grunnskólahverfi auk frekari möguleika til uppbyggingar verslunar-, þjónustu- og miðsvæðis við gamla bæinn að Blikastöðum.