Matvælaráðuneytið birti nýlega stefnu um lagareldi í samráðsgátt stjórnvalda. Stefnan er til 2040 og tekur hún á öllu lagareldi, sem er þá allt sem er ræktað í sjó eða vatni.
Byggist stefnan á úttekt sem Boston Consulting Group gerði fyrr á þessu ári en bæði í henni og í stefnunni um lagareldi er þó hvergi minnst á skeldýrarækt.
„Matvælastofnun hefur gert athugasemd um bæði þessi skjöl í sínum umsögnum en einhverra hluta vegna virðist það ekki ná eyrum stjórnvalda,“ segir Ingibjörg Jónsdóttir, fagsviðsstjóri hjá Matvælastofnun, spurð hvort stofnunin viti hvers vegna skeldýrarækt sé undanskilin í stefnunni um lagareldi.
Segir Ingibjörg fleiri hafa gert athugasemdir við þetta en að hennar sögn er skeldýrarækt mjög umhverfisvæn þar sem hún þarf hvorki áburð né fóður, einungis sjóinn.
„Það er einmitt það sem getur gert skelina varasama af því að á vissum tímabilum og við viss skilyrði vaxa eitraðir þörungar í sjó og eitrið safnast upp í skelinni. Kræklingur sem þú tínir í fjörum og veiðir getur valdið niðurgangi, minnisleysi eða tímabundinni lömun. Þess vegna eru svona miklar reglur um sýnatökur og vöktun á eiturþörungum í sjónum.“
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.