Skilaboð um að eldgos sé hafið á Reykjanesskaganum, sem fullyrt er inn á Facebook-hópnum Hið raunverulega bakland ferðaþjónustunnar að hafi borist erlendum ferðamanni frá Icelandair, komu ekki frá flugfélaginu.
Þetta staðfestir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair.
Í skjáskoti af skilaboðunum sem birt hafa verið á Facebook-hópnum, segir að eldgos sé hafið á suðvesturhorni Íslands. Á þessum tímapunkti ógni eldgosið ekki starfsemi Icelandair eða Keflavíkurflugvelli. Eru skilaboðin dagsett 11/07/23.
Segir í færslunni með skjáskotinu að tímasetningin sé „bandarísk“ og merki því 7. nóvember en ekki 11. júlí.
Ásdís Ýr segir að orðsendingin sem birtist í skjáskotinu hafi komið frá félaginu í sumar, nánari tiltekið 10. júlí, þegar eldgosið við Litla-Hrút hófst. Virðist því einhver óprúttinn aðili hafa breytt tölunni 10 í 11.