Umhverfisstofnun áætlar að fjölga loftgæðamælum á Reykjanesskaga, þar sem hugsanlega gæti gosið. Ekki er mælt með því að rýma Grindavík vegna mögulegrar gasmengunar af völdum gossins, því vindáttin á Íslandi er afar breytileg.
Þetta sagði Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur í loftgæðum hjá Umhverfisstofnun, á upplýsingafundur vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga í Stapa Hljómahöll í kvöld.
Spurt var úr sal hvort búast mætti við því að hættuleg gasmengun bærist frá hugsanlegu gosinu í Reykjanesbæ, hvort fjölga ætti loftgæðamælum á svæðinu og hvort það komi til greina að rýma Grindavík vegna mögulegrar gasmengunar.
Var spurningunni beint til Víðis Reynissonar, yfirlögregluþjóns almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, en svo heppilega vildi til að Þorsteinn var mættur á fundinn og tók því að sér að svara spurningunni.
„Það eru núna mælar í Vogum, Stapaskála og mælar sem Isavia er með,“ sagði Þorsteinn, sem benti síðan á að Umhverfisstofnun ætli að fjölga mælum á svæðinu og setja upp mæla til varanlegs tíma. Þá sé búið að panta sjö mæla til viðbótar en ekki sé víst hvort þeir berist til landsins fyrir eða eftir áramót.
„Það getur vissulega orðið mikill styrkur lofttegunda í byggð en það getur orðið snúið að rýma í landi þar sem vindáttin er alltaf að breyta sér. Yfirleitt er betra að sitja af sér mengunina innandyra, loka gluggum og slökkva loftræstingu – ekki rýma. Þá værum við að rýma eiginlega endalaust fram og til baka.“