„Tími langrar vistunar er einfaldlega liðinn“

Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar.
Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar. mbl.is/Arnþór

Almar Guðmundsson, bæjarstjóri í Garðabæ, segir að tími langrar vistunar barna á leikskólum sé liðinn og að fleiri og fleiri sveitarfélög muni feta þær slóðir að stytta dvalartímann. Hann segir að börn hafi setið eftir í umræðu um styttingu vinnuviku og að óeðlilegt sé að þau búi við ólíkt umhverfi og foreldrar þar sem vinnuvikan sé að styttast.

Fyrr í dag var greint frá því að Garðabær hygðist fara í breytingar á fyrirkomulagi leikskólamála í bænum, en eitt aðalatriðið þar er að hámarksviðvera barna verður 40 klst á viku, eða sem nemur 8 klst á dag. Er þetta í anda leiðar sem var farin í Kópavogi fyrr í haust, en þó segir Almar nokkurn mun vera á útfærslu sveitarfélaganna.

Markmiðið ekki aðhald eða hagræðing

Aðdragandinn að þessari ákvörðun er að sögn Almars sá að undanfarin misseri hafi álag á leikskólakerfið bæði í Garðabæ og víðast hvar um landið verið mikið og verið að taka breytingum. „Við viljum breyta kerfinu í þá átt að það mæti þeim veruleika sem við búum við í dag,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Hann segir aðspurður að ástæða þessara breytinga sé ekki aðhald eða hagræðing. Ekki sé áformað að aðgerðirnar skili sparnaði. Bæði sé gert ráð fyrir lægri tekjum af leikskólagjöldum, en einnig að hægt verði að lækka kostnað.

Hann segir Garðabæ hafa upplifað það sama og önnur sveitarfélög, að erfitt sé að manna allar stöður á leikskólunum. All oft hafi þurft að beita fáliðunarreglu og loka deildum vegna þess að ekki var mannskapur í húsi. „Slíkt skapar óstöðugleika og óöryggi,“ segir hann um áhrifin fyrir fjölskyldur. Segir Almar að með þessum aðgerðum sé ætlunin að tryggja öruggari umgjörð leikskólamála og um leið tryggja að hægt sé að standa við innskráningartíma barna.

Almar segir að markmið aðgerðanna sé ekki hagræðing eða aðhald, …
Almar segir að markmið aðgerðanna sé ekki hagræðing eða aðhald, heldur snúi þetta að mönnunarmálum, starfsaðstæðum og því að börn fylgi foreldrum í styttingu vinnuviku. mbl.is/Sigurður Bogi

„Börnin hafa að mörgu leyti setið eftir í þessari umræðu“

Spurður hvort hann telji mönnunarvandann að einhverju leyti stafa af styttingu vinnuvikunnar segist Almar telja það hluta ástæðunnar. Hann segir þó þurfa að ræða þetta á víðari grundvelli, enda telji hann að hugarfarið varðandi styttingu vinnuvikunnar þurfa að skila sér til barna líkt og það skili sér til fjölskyldna. „Við teljum í anda barnvæns sveitarfélags og fleira í þeim dúr að það sé ábyrgðarhlutur af sveitarfélagi að vinna skýrt að því markmiði að stytta dvöl barnanna,“ segir Almar.

Tekur hann fram að öll umræðan um styttingu vinnuvikunnar þurfi að ná lengra en til þeirra sem eru á vinnumarkaði. „Börnin hafa að mörgu leyti setið eftir í þessari umræðu um styttingu. Það er ekkert eðlilegt ef við komum börnum inn á leikskóla 12-15 mánaða gömlum að þeirra umhverfi sé marktækt ólíkt umhverfi foreldranna varðandi vinnutíma á viku. Það eru engin fagleg rök út frá börnunum hvað þetta varðar.“

Á von á að fleiri feti sömu braut

Almar segir að ásetningur með styttingu vinnuvikunnar hafi verið að auka fjölskyldugæði. „Það næst ekkert ef leikskólabörnin eru að dvelja 45 klst á viku. Það þarf harðan skráp fyrir fólk sem ætlar að halda því fram að það sé samrýmanlegt að iðka betri vinnutíma og styttri vinnuviku, en að vera á sama tíma með börn í leikskólum umfram 40 tíma á viku.“ Segist hann eiga von á því að fleiri sveitarfélög muni feta á þessar slóðir varðandi að draga úr vistun umfram 40 klst á viku.

Almar segist telja að Garðabær hafi hingað til verið sveigjanlegur þegar komi að leikskólamálum og leggur áherslu á að með hugmyndinni um 40 klst hámarksvistun þá sé það fjölskyldna að útfæra hvernig þau vilji skipta vistuninni niður á hvern virkan dag. Ekki sé krafa um jafn langa viðveru alla daga vikunnar. Segir hann að þarna séu vannýtt tækifæri til að ná sameiginlegum markmiðum um bæði öruggari þjónustu og styttri viðveru barna og þar með meiri tíma með fjölskyldu.

Kemur sér misvel fyrir fjölskyldur

Ljóst er að styttur hámarksdvalartími mun koma sér misvel fyrir fjölskyldur. Voru hærri leikskólagjöld vegna lengri dvalar í Kópavogi meðal helstu gagnrýnisraddanna sem heyrðust. Spurður út í þetta segir Almar að unnið verði út frá þeim raunveruleika sem sé uppi. Segist hann bera virðingu fyrir því að það séu fjölskyldur þar sem ekki sé sjálfgefið að geta aðlagað sig eins hratt að þessari útfærslu og bærinn vilji gera. „Við verðum að taka það með okkur líka, okkur ber skylda til þess þar sem þetta er mikilvæg þjónusta.“

„Leikskólagjöld eru notendagjöld

Almar segir að á sama tíma og ljóst sé að öllum verði ekki mögulegt að stytta dvalartímann mikið undir 40 klst á viku þá sé ákveðið markmið sem felist í gjaldskrárbreytingum sem gefi aukinn afslátt sé barnið í skemmri dvalartíma. Segir hann það viljandi gert til að fá foreldra til að skoða betur vikuplanið og reyna að fækka dvalartímum.

Hins vegar segist hann áfram vilja hafa gjald fyrir þjónustu, en ekki ókeypis vistun ef foreldrar fari undir ákveðið mark eins og var í Kópavogi. „Leikskólagjöld eru notendagjöld og við teljum mikilvægt að foreldrar greiði sinn hlut, alveg sama hversu löng vistunin er. Þó þannig að gjaldskráin endurspegli hvata til að fólk endurskoði hversu langt það geti gengið í skemmri vistun,“ segir Almar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka