Tjón í svörtustu sviðsmyndinni ekki tryggð

Frá upplýsingafundinum í kvöld. HS Orka rekur tvær virkjanir á …
Frá upplýsingafundinum í kvöld. HS Orka rekur tvær virkjanir á Reykjanesskaga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hústjón sem gætu orðið á Reykjanesskaga, miðað við svörtustu sviðsmyndina ef til eldgoss kæmi, eru að öllum líkindum ekki tryggð af Náttúruhamfaratryggingu Íslands. Flokkast þau tjón ekki sem bein tjón á húseignum vegna náttúruhamfara.

Þetta kom fram í kvöld á upp­lýs­inga­fundi vegna jarðhrær­ing­anna á Reykja­nesskaga en fund­ur­inn er hald­inn á veg­um al­manna­varna­nefnd­ar Suður­nesja, utan Grinda­vík­ur.

Á fundinum var Hulda Ragnheiður Árnadóttir, forstjóri Náttúruhamfaratryggingu Íslands, spurð hvort tryggingastofnunin hefði gert sér grein fyrir því hvað það muni kosta ef einhver húskerfi bila vegna gossins og hvernig það yrði bætt.

Hætta er á því að ef til goss kemur gætu rafveitu-, vatnsleiðslu- og hitaveitukerfi á Reykjanesskaga orðið fyrir tjóni vegna eldgossins og þar af leiðandi valdi viðhlítandi tjóni á heimilum í sveitarfélögum á svæðinu. Til dæmis gætu myndast frostsprungur í lögnum.

Fellur ekki undir beint tjón

Hulda sagði að náttúruhamfartrygging hefði ekki kannað hvert umfang tjónsins yrði í neinni nákvæmri sviðsmynd en að stofnunin vissi þó hversu mörg heimili væri um að ræða og hefði gert lauslegt mat á því hvert meðaltjón á hverju húsi gæti orðið.

„Hins vegar er það þannig að Náttúruhamfaratrygging Íslands, samkvæmt lögum um náttúruhamfaratryggingu, tryggir aðeins beint tjón sem verður á húseignum vegna atburðar og vátryggðu lausafé,“ sagði Hulda.

„Það hefur verið fengið mat á því hvort tjón á því tagi sem lýst er í þeirri svörtustu sviðmynd myndi falla undir það að vera beint tjón eða ekki og niðurstaðan er sú að það myndi ekki flokkast undir að vera beint tjón samkvæmt þeim lögum sem eru í gildi um náttúruhamfaratryggingu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert