Veitur gefa út tilmæli fyrir fjölda íbúa

Hér má sjá svæðið þar sem verður heitavatnslaust þar til …
Hér má sjá svæðið þar sem verður heitavatnslaust þar til í fyrramálið. Skjáskot/LUKSjá

Heitavatnslaust verður frá klukkan 22 í kvöld í Garðabæ, Álftanesi, Hafnarfirði, Kópavogi og Breiðholti, vegna viðgerðar á svonefndri Suðuræð. Íbúum á svæðinu er bent á að skrúfa fyrir krana og að loka gluggum í kvöld.

Í tilkynningu frá Veitum segir að stefnt sé að því að heitu vatni verði aftur hleypt á um fimm tímum síðar og Veitur búast við að fullur þrýstingur verði kominn aftur á hjá öllum íbúum á svæðinu í fyrramálið klukkan sjö.

Viðgerðir verða á Suðuræð, sem er ein aðalflutningsleiðin á heitu …
Viðgerðir verða á Suðuræð, sem er ein aðalflutningsleiðin á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu. Ljósmynd/Veitur

Íbúar skrúfi fyrir krana og loki gluggum

Í tilkynningunni kemur einnig fram að mikilvægt sé að íbúar hafi skrúfað fyrir krana til að koma í veg fyrir slys og tjón þegar vatnið kemur á aftur á morgun.

Þá er einnig gott að hafa gluggana lokaða á þessum tíma til að halda varmanum inni. Eins er húseigendum bent á að huga að innanhússkerfum.

Þegar vatni er hleypt aftur á viðamikið lagnakerfi eftir lokun er eðlilegt að lekar geti komið upp. Í slíkum tilvikum er mikilvægt að tilkynna það svo hægt sé að bregðast við sem fyrst.

Eftirfarandi götur í Kópavogi verða ekki fyrir áhrifum af lokuninni: Hluti Urðarhvafs og Ögurhvarfs, Dimmuhvarf, Fornahvarf, Melahvarf, Grundarhvarf, Brekkuhvarf, Breiðahvarf, Faxahvarf, Fálkahvarf, Funahvarf, Fellahvarf, Glæsihvarf, Kríunesvegur, Elliðahvammsvegur, Vatnsendi, Vatnsendablettur, Fagranes, Fróðaþing, Hólmaþing og stór hluti Dalaþings.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert