Heitavatnslaust verður frá klukkan 22 í kvöld í Garðabæ, Álftanesi, Hafnarfirði, Kópavogi og Breiðholti, vegna viðgerðar á svonefndri Suðuræð. Íbúum á svæðinu er bent á að skrúfa fyrir krana og að loka gluggum í kvöld.
Í tilkynningu frá Veitum segir að stefnt sé að því að heitu vatni verði aftur hleypt á um fimm tímum síðar og Veitur búast við að fullur þrýstingur verði kominn aftur á hjá öllum íbúum á svæðinu í fyrramálið klukkan sjö.
Í tilkynningunni kemur einnig fram að mikilvægt sé að íbúar hafi skrúfað fyrir krana til að koma í veg fyrir slys og tjón þegar vatnið kemur á aftur á morgun.
Þá er einnig gott að hafa gluggana lokaða á þessum tíma til að halda varmanum inni. Eins er húseigendum bent á að huga að innanhússkerfum.
Þegar vatni er hleypt aftur á viðamikið lagnakerfi eftir lokun er eðlilegt að lekar geti komið upp. Í slíkum tilvikum er mikilvægt að tilkynna það svo hægt sé að bregðast við sem fyrst.
Eftirfarandi götur í Kópavogi verða ekki fyrir áhrifum af lokuninni: Hluti Urðarhvafs og Ögurhvarfs, Dimmuhvarf, Fornahvarf, Melahvarf, Grundarhvarf, Brekkuhvarf, Breiðahvarf, Faxahvarf, Fálkahvarf, Funahvarf, Fellahvarf, Glæsihvarf, Kríunesvegur, Elliðahvammsvegur, Vatnsendi, Vatnsendablettur, Fagranes, Fróðaþing, Hólmaþing og stór hluti Dalaþings.