Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram á þingi beiðni um að ríkisendurskoðandi geri úttekt á framkvæmd og eftirliti með lögum um póstþjónustu.
Óli Björn Kárason þingmaður segir frá þessu í grein í Morgunblaðinu í dag þar sem einnig kemur fram að óskað sé eftir að dregið verði fram hvernig Póst- og fjarskiptastofnun, sem áður hafði eftirlit með starfsemi Íslandspósts, og síðar Byggðastofnun, sem hefur það hlutverk nú, hafi tekist að uppfylla lögbundið hlutverk sitt og ákvæði laga um póstþjónustu.
Þá verði dregið fram hvort framlög til Íslandspósts vegna veitingar alþjónustu séu rétt reiknuð og hvernig gjaldskrárbreytingum var háttað. Í greininni lýsir Óli Björn efasemdum um réttmæti þess að eftirlitsaðilar skuli hafa ákveðið að ríkið skyldi greiða Íslandspósti tæpar 1.700 milljónir kr. vegna áranna 2020-2022, „þegar grunnskilyrði um fjárframlög virðast ekki hafa verið uppfyllt“.
Í því sambandi nefnir hann að gjaldskrá Íslandspósts hafi ekki uppfyllt ákvæði laga um að gjaldskráin skuli taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustuna að viðbættum hæfilegum hagnaði.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.