„Það er allur heimurinn að tala um að fara að byrja einstaklingsmiðaða læknisþjónustu en við getum hrint henni í framkvæmd í dag, það getur engin önnur þjóð gert það,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar kynna í dag niðurstöður rannsóknar á erfðabreytileikum (e. actionable genotypes) í íslensku þjóðinni og tengslum þeirra við ævilengd. Niðurstöðurnar gefa til kynna að einn af hverjum tuttugu og fimm Íslendingum sé með meðferðartækan erfðabreytileika sem veldur því að hann lifir skemur en þeir sem bera hann ekki.
Með því að finna þennan breytileika og upplýsa viðkomandi einstaklinga svo þeir geti leitað sér lækninga má auka lífslíkur til muna.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur, meðal annars með hliðsjón af þessum niðurstöðum, ákveðið að hefja undirbúning að einstaklingsmiðuðum lækningum. Slík heilbrigðisþjónusta krefst góðs aðgengis að nákvæmum heilbrigðisupplýsingum, til að mynda erfðaupplýsingum, en íslenska þjóðin á kost á því að fá betri aðgang að slíkum upplýsingum en nokkur önnur þjóð í heiminum.
Að sögn Kára er það vegna þess að Íslendingar eiga svo mikið af gögnum sem má nota til þess að meta heilsu og þá áhættu sem steðjar að einstaklingum í íslensku samfélagi.
Fræðslufundur verður klukkan fimm í dag í húsi Íslenskrar erfðagreiningar þar sem heilbrigðisráðherra flytur m.a. ávarp.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.