Vinna við að rýma hótel Bláa lónsins stendur enn yfir en samkvæmt upplýsingum mbl.is eru síðustu gestirnir að skrá sig út. Eru gestir enn í tveimur herbergjum á Silica hótelinu.
Stórir skjálftar riðu yfir Svartsengi í nótt, sá stærsti 4,8 að stærð. Ákvörðun var tekin um að loka Bláa lóninu í eina viku frá og með deginum í dag.
Meginástæður eru sagðar truflun á upplifun gesta í nótt og langvarandi aukið álag á starfsmenn, að því er fram kemur í tilkynningu. Bláa lónið rekur tvö hótel á svæðinu, Retreat og Silica hótelið.
Víkurfréttir greindu frá því í nótt að tugir óttasleginna gesta hafi sóst eftir því að komast í burtu frá Bláa lóninu í kjölfar jarðskjálftahrinunnar sem hófst upp úr miðnætti.