Fjögurra manna bandarísk fjölskylda, sem lenti hér á landi árla morguns, varð fyrir þó nokkrum vonbrigðum þegar blaðamenn mbl.is tilkynnti henni um lokun Bláa lónsins úti á bílastæði heilsulindarinnar.
Hjónin Elizabeth og Colin, ásamt dóttur sinni og móður Colin, höfðu hugsað sér gott til glóðarinnar eftir langt og þreytandi flug og ætluðu sér beint ofan í lónið af flugvellinum.
Þrátt fyrir vonbrigðin kveðst fjölskyldan sýna lokuninni skilning enda lítið hægt að gera við öflum náttúrunnar.
„Þetta er svo spennandi áminning, allavega fyrir mig, um að þetta sé lifandi staður og að náttúran sé stór og kraftmikil. Við missum af Bláa lóninu en þetta er líka smá stórfenglegt,“ segir Elizabeth og brosir.
Aðspurð kveðst hún þó ekki viljug til að vera of nálægt ef það tekur að gjósa.
Colin, sem sjálfur starfar sem blaðamaður fréttastofu CNN, kvaðst hafa vitað af jarðhræringum á Reykjanesskaganum, en ekki að ákvörðun hefði verið tekin um að loka Bláa lóninu. Tölvupóstur þess efnis hafi líklegast borist þeim á meðan þau voru í fluginu.
Aðspurð kveðst fjölskyldan vissulega vonsvikin að komast ekki í lónið, en að öryggi sé að sjálfsögðu í fyrrarúmi.
„Ég vona að allir sem búi hérna séu óhultir,“ segir Colin. „Þar er miklu stærra áhyggjuefni.“