Gæti ekki skilið börnin eftir ein í Grindavík

Andrea segir hegðun barna og annarra í Grindavík hafa breyst …
Andrea segir hegðun barna og annarra í Grindavík hafa breyst eftir að aftur fór að skjálfa. Samsett mynd

Lítið hefur verið sofið á heimili Andreu Ævarsdóttur í Grindavík síðustu daga og ástandið verið streituvaldandi. Á meðan jarðskjálftavirknin er eins mikil og raun ber vitni myndi hún ekki fara úr bænum nema að taka strákana sína tvo með sér.

„Ef ég væri að vinna í Reykjavík væri þetta pínu erfitt ástand því ég held að ég myndi ekki þora að skilja börnin mín eftir ein hér á meðan ég væri að vinna í bænum. Mér finnst rosa gott að vera heima hjá mér og vinna í mínum heimabæ. Það er bara frábært og ákveðið öryggi,” segir Andrea.

Hún segist hafa spurt syni sína, sem eru 16 og 14 ára, hvort þeir vildu flytja til pabba þeirra, sem býr í Reykjavík, og fá frí úr skólanum á meðan ástandið er svona. Hún hafi fengið þvert nei, enda allir vinir þeirra í Grindavík og tómstundir sem þeir stunda.

Sjálf segist hún ekki hafa pakkað ofan í tösku til að hafa tilbúna ef illa fer. „Mín hugsun er sú að allt sem ég myndi pakka ofan í tösku það er til annars staðar,” segir hún og á við verslanir og apótek. „Ef ég ætla að stökkva af stað þá tek ég börnin mín og kettina mína og ég fer.”

Andrea ásamt sonum sínum tveimur.
Andrea ásamt sonum sínum tveimur. Ljósmynd/Aðsend

„Er ég að verða eitthvað biluð?“

Andrea kveðst annars vegar frekar afslöppuð týpa að eðlisfari sem hafi ekki áhyggjur af hlutum sem hún ræður ekki við, þar á meðal jarðskjálftum og eldgosum. Skjálftahrinan að undanförnu hafi aftur á móti verið óþægileg og hún kannski nýkomin upp í rúm þegar allt taki að hristast.

„Í gær þegar ég sat yfir sjónvarpinu þá var stanslaus titringur. Ég meira að segja hugsaði: „Er ég að verða eitthvað biluð? Eru þetta jarðskjálftar?”

Þegar hún var rétt farin að festa svefn um kl. 0.45 í nótt hafi stór skjálfti upp á 4,8 riðið yfir og margir stórir eftirskjálftar í kjölfarið. „Ef maður er að reyna að fara að sofa, meira að segja þó að maður sé ekkert kvíðinn eða áhyggjufullur yfir þessu, þá hrekkur maður upp og fær hjartslátt. Þetta er streituvaldandi ástand,” greinir hún frá.

Fjallið Þorbjörn.
Fjallið Þorbjörn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hegðun skólabarna breyst 

Andrea er forstöðumaður á bóksafninu í Grindavík, þar sem bæði er almennings- og skólabókasafn. Hún segist hafa orðið vör við aukinn kvíða á meðal barnanna. Spennustigið í skólanum hafi jafnframt verið hátt síðustu vikuna, börnin verið uppstökkari og slagsmál brotist út. Hún finni það sjálf að hegðun þeirra á bókasafninu sé öðruvísi en venjulega.

Áhyggjur af húsinu og lokun Grindavíkurvegar

16 ára sonur hennar stundar nám við Fjölbrautaskóla Suðurnesja (FS) í Reykjanesbæ. Helstu áhyggjur hans, að sögn Andreu, er möguleg lokun Grindavíkurvegar á meðan hann er í skólanum.

Hún bendir á að skólayfirvöld hafi sent póst á foreldra og rætt við nemendur um að farið verður með nemendur sem búa í Grindavík í fjöldahjálparmiðstöð í Reykjaneshöll ef þeir komast ekki heim.

Frá Grindavík.
Frá Grindavík. mbl.is/Sigurður Bogi

Yngri sonurinn hefur, að hennar sögn, áhyggjur af því að húsið þeirra gæti eyðilagst í jarðskjálfta og þau sætu uppi heimilislaus. Kvíði sona hennar tveggja sé því djúpstæður en jafnframt skiljanlegur vegna ástandsins sem er uppi.

Bókasafnshillurnar þola 6 stiga skjálfta

Spurð hvort bækur hafi dottið úr hillum bókasafnsins í jarðskjálftunum undanfarið segir Andrea allan bókasafnsbúnaðinn eiga að þola jarðskjálfta upp á að minnsta kosti sex stig. Eru hillurnar útbúnar þannig að þær hreyfast til án þess að bækurnar detta út ef jarðskjálfti verður.

Horft til suðurs með Grindavíkurvegi.
Horft til suðurs með Grindavíkurvegi. mbl.is/Hákon

Hún kveðst vissulega vera orðin langþreytt á jarðskjálftunum í Grindavík undanfarin ár en nefnir að bæjarbúar séu fljótir að gleyma.

„Þetta er pirrandi á meðan á þessu stendur en svo hefur byrjað að gjósa og allt færist í ljúfa löð eftir það,” segir Andrea, sem tekur fram að jarðskjálftahrinan núna sé óvenjuhörð, enda upptökin nálægt bænum. Hún vonar að ef eldgos verður gerist það á svipuðum stað og síðast, fjarri byggð, Svartsengi og Bláa lóninu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert