Gestir eðlilega uggandi en flestir yfirvegaðir

Helga Árnadóttir ræddi við mbl.is um stöðu mála.
Helga Árnadóttir ræddi við mbl.is um stöðu mála. Samsett mynd

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Bláa lónsins, segir að ákvörðunin um að loka staðnum hafi verið tekin í nótt eftir að kröftug jarðskjálftahrina gekk yfir skömmu eftir miðnætti.

„Við höfum síðustu daga og vikur verið að teikna upp mismunandi sviðsmyndir og fylgst grannt með gangi mála. Í rauninni ákváðum við þetta í nótt þegar þessi hörðu skjálftar riðu yfir í þessum mikla mæli,” segir Helga, spurð út í lokunina.

Þar var horft til þeirra truflana sem gestir urðu fyrir og langvarandi álags á starfsmenn Bláa lónsins.

„Við gerðum okkur grein fyrir að þessi tegund skjálfta þýddi að ekki væri hætta á ferðum enda hefðu almannavarnir brugðist við því en engu að síður fannst okkur mikilvægt að bregðast við með þessum hætti á þessum tíma,” bætir hún við.

Ákveðið var að loka Bláa lóninu í eina viku eftir …
Ákveðið var að loka Bláa lóninu í eina viku eftir jarðskjálfta næturinnar. mbl.is/Arnþór

Yfirgáfu Retreat-hótelið

Spurð út í fregnir um að tugir óttasleginna gesta lónsins hafi flúið þaðan eftir skjálftana segir Helga að einn hópur vegi þar þyngst. Hann hafi dvalið á Retreat-hótelinu. Fólkið hafi verið aðstoðað eftir fremsta megni við að yfirgefa hótelið, sem það kunni vel að meta.  

Fregnir hafa einnig borist af því að grjót hafi hrunið á veginn upp að anddyri hótels Bláa lónsins en Helga kveðst ekki hafa heyrt af því en það gæti þó vel hafa gerst. 

Horft yfir Bláa lónið og í átt að Þorbirni.
Horft yfir Bláa lónið og í átt að Þorbirni. mbl.is/Hákon Pálsson

„Almennt voru gestir eðlilega uggandi og áttuðu sig á aðstæðunum en þeir voru langflestir yfirvegaðir. Starfsfólk okkar stóð sig gríðarlega vel eins og alltaf við að aðstoða gesti og upplýsa þá eins og alltaf er gert. Gestirnir kunnu vel að meta það,” segir hún um viðbrögðin í kjölfar skjálftahrinunnar. 

Fjárhagslegt tjón aukaatriði

Síðan jarðhræringarnar á Reykjanesskaga hófust árið 2020 hefur Bláa lóninu einu sinni áður verið lokað. Spurð út í fjárhagslegt tjón vegna lokunarinnar segir Helga forsvarsmenn Bláa lónsins ekki hafa skoðað það sérstaklega. Slíkt sé aukaatriði í stóru myndinni og mestu skipti að hlúa að gestum og starfsfólki.

Verið er að fara yfir húsnæði Bláa lónsins til að athuga hvort skemmdir hafi orðið vegna skjálftanna og segir Helga eitthvað hafa verið um minniháttar tjón en engar stórvægilegar skemmdir orðið. 

Matvæli hafa jafnframt verið afpöntuð vegna lokunarinnar.

Retreat-hótel Bláa lónsins.
Retreat-hótel Bláa lónsins. Ljósmynd/Aðsend

„Nú ætlum við að anda í kviðinn og reyna að átta okkur vel á stöðunni og kortleggja framhaldið,” segir hún, spurð út í næstu skref, og nefnir aftur að starfsfólkið hafi staðið sig gríðarlega vel við erfiðar aðstæður undanfarnar tvær vikur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert