Hafa tapað tugmilljónum vegna netfjársvika

Fjármuna- og peningaþvættisdeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur 41 mál til …
Fjármuna- og peningaþvættisdeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur 41 mál til rannsóknar sem flokkast sem fjársvik yfir netið. Samsett mynd

Dæmi eru um að einstaklingar hafi tapað tugmilljónum króna í netfjársvikum hér á landi. Slík brot hafa verið að færast í aukana en segja má að hrina hafi byrjað í ágúst sem sé enn í gangi.

Þetta kemur fram í skriflegu svari lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu við fyrirspurn mbl.is.

Fjármuna- og peningaþvættisdeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur 41 mál til rannsóknar sem flokkast sem fjársvik yfir netið. Í sumum þessara mála hafa fjársvikarar notað aðferðir þar sem rafræn skilríki koma við sögu.

Heimila óvart aðgang að netbönkum

Í svari lögreglunnar segir að í flestum þessara tilvika hafi brotaþolar verið blekktir til að staðfesta aðgerðir með rafrænum skilríkjum og heimilað brotamönnum aðgang að persónulegum netbönkum.

„Þessi málaflokkur hefur verið að færast í aukana en við eigum eftir að taka þau gögn saman til að geta séð samanburð milli ára.“

Upphæðirnar sem fólk tapar geta hlaupið á nokkur hundruð þúsundum króna og allt upp í tugmilljónir króna.

Forvarnir helsta vopnið

Spurð hvort áhyggjur séu uppi um að of auðvelt sé að komast yfir rafræn skilríki fólks svarar lögregla:

„Hvað varðar áhyggjur þá hefur lögregla reynt að vera með reglulegar ábendingar í forvarnarskyni og tel ég forvarnir vera okkar helsta vopn í baráttu gegn þessum svikum. Þá er lögregla í virku samstarfi með hagsmunaaðilum sem hafa verið virkir í að bregðast við þegar t.d. er um öryggisgalla að ræða eða þegar að öryggisvarnir eru ekki nægjanlega góðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert