„Ég hef meiri áhyggjur af vinum mínum í Grindavík. Þetta er búið að vera erfiður tími fyrir þá. Dag eftir dag og nótt eftir nótt. Ég bæði sé og heyri á íbúum þar hvað þetta er vont.“
Þetta segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, en snarpir jarðskjálftar urðu á Reykjanesskaga í nótt. Stærsti skjálftinn mældist 5 að stærð en hann reið yfir um fimmtán mínútur í eitt í nótt.
„Ég veit ekki hvað íbúar Reykjanesbæjar hafa fundið mikið fyrir þessu. Ég sé á samfélagsmiðlum að þetta finnst víða og ég gæti alveg trúað því að fólki þætti þetta óþægilegt en það er náttúrulega misjafnt bara. Við fundum vel fyrir þessu en við búum í fjölbýlishúsi á sjöundu hæð. Það nötraði allt hér og skalf.“
Kjartan segist telja að stóri skjálftinn í nótt sé sennilega með þeim harðasta sem hann hefur fundið.
„Konan mín var reyndar einu sinni hér heima og þá duttu munir úr hillum fyrir þremur árum. Það var nú reyndar ekkert svoleiðis núna hérna heima hjá okkur.“
Kjartan segir að hljóðið í fólki á íbúafundi í Reykjanesbæ hafi verið nokkuð gott.
„Það er algjör óvissa hvort af þessari svörtustu sviðsmynd verði. Það kom fram hjá bæði Kristínu [fagstjóra náttúruvöktunar á Veðurstofu Íslands]og Víði [sviðsstjóra almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra] að það væri ólíklegt að þetta færi allt á versta veg. Það væri líklegra að þetta yrði eitthvað minna.“
Kjartan segir fólk almennt hafa tekið fundinum vel og þeim upplýsingum sem þar komu fram.