Mikil gleði braust út meðal framkvæmdaaðila við endurbætur á Hótel Sögu í Vesturbæ Reykjavíkur á þriðjudag þegar hinn gamli hornsteinn byggingarinnar fannst. Fulltrúar Ístaks, sem sjá um endurgerð hússins fyrir Háskóla Íslands, vissu af tilvist hornsteinsins en enginn vissi hvar í húsinu hann væri.
Þegar verið var að rífa gömlu lyfturnar sem fluttu fólk upp á hinn vinsæla veitingastað Grillið og breyta lyftuhúsinu fannst hornsteinninn.
„Það var fyrir algera slysni að menn fundu þetta holrými í veggnum og inni í því var sívalningur. Það voru engin önnur ummerki og þeir sem voru að vinna klóruðu sér bara í hausnum. Þegar sívalningurinn var opnaður kom þetta skjal í ljós, sjálft hornsteins-skjalið,“ segir Magnús Orri Einarsson, tæknistjóri hjá Félagsstofnun stúdenta.
Hornsteinn byggingarinnar var lagður hinn 11. mars 1961 af Ásgeiri Ásgeirssyni forseta Íslands. Í hylkinu voru tvö blöð sem líklega voru skrifuð á vaxpappír. Á þeim var byggingarsaga hússins rakin og þess getið hverjir skipuðu stjórn Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda sem stóðu að framkvæmdinni. Jafnframt var tíundað hvaða iðnmeistarar höfðu umsjón með byggingunni og að húsameistari væri Halldór H. Jónsson.
Athygli vekur að helstu ráðamenn þjóðarinnar daginn sem hornsteinninn er lagður eru taldir upp; ráðherrar í ríkisstjórn Íslands, forseti bæjarstjórnar Reykjavíkur og borgarstjóri. „Nafn hússins er Bændahöllin,“ segir svo að endingu.
Alla jafna fer ekki framhjá fólki hvar hornsteinn bygginga er og þannig var það í upphafi á Hótel Sögu. Silfurplatti var á veggnum fyrir framan holrýmið þar sem hann var að finna við lyfturnar í suðurálmu á 1. hæð. Magnús Orri segir að leitað hafi verið til elstu manna og kvenna sem unnu í húsinu og enginn hafði hugmynd um hvar hornsteininn var að finna.
Raunar réð alger tilviljun því að umræddur silfurplatti fannst síðasta vor. „Hann fannst í rusli niðri í kjallara og var svo kominn út í gám þegar íslenskumælandi starfsmaður sá hann og áttaði sig á að þetta væri líklega ekki rétti staðurinn fyrir hann,“ segir Magnús.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.