Í raun tvennt í stöðunni til að verja kerfin

Þorsteinn Einarsson pípulagningameistari í Grindavík segir að fólk á Suðurnesjum …
Þorsteinn Einarsson pípulagningameistari í Grindavík segir að fólk á Suðurnesjum þurfi að vera meðvitað um til hvaða aðgerða er hægt að grípa til að verja lagnir ef hitaveita dettur út og rafmagn fer. mbl.is/Sigurður Bogi

Frosið getur í lögnum þegar hitaveita dettur út og rafmagn fer. Áhyggjur af slíku ástandi voru meðal annars áberandi á íbúafundi í Reykjanesbæ í gær.

Tryggingafélögin bæta ekki slíkt tjón en varúðarreglur vátryggingarskilmála húseigendatrygginga skylda húseigendur í óupphituðum húsum að loka fyrir vatnsaðstreymi og tæma vatnslagnir þegar von er á frosti.

Þorsteinn Einarsson pípulagningameistari í Grindavík segir að fólk á Suðurnesjum þurfi að vera meðvitað um til hvaða aðgerða er hægt að grípa.

Frostlög inn á lokuð kerfi og blása úr öðrum

Þorsteinn samsinnir því aðspurður í samtali við mbl.is að auðvitað sé misjafnt hvað þurfi að gera eftir því hvernig húshitunarkerfin séu uppsett hjá fólki. Það hermir við það sem Páll Erland, forstjóri HS Veitna, sagði á íbúafundinum í gær þegar aðgerðir til varnar húshitunarkerfum voru ræddar.

Var Páll þá inntur eftir leiðbeiningum til handa húsráðendum en sagði erfitt að setja fram slíkar leiðbeiningar almennt.

„Því miður eru kerfin ofboðslega mörg og mismunandi. Niðurstaðan er því sú að leita til fagmanna sem að kynna sér akkúrat ykkar eignir og geta leiðbeint ykkur með góðum hætti,“ sagði Páll á fundinum í gær.

Pípulagningameistarinn segir þó í raun og veru bara tvennt í stöðunni.

„Þeir sem eru með lokuð kerfi geta sett frostlög inn á þau kerfi og þá eru þau „safe“ en þeir sem eru ekki með lokuð kerfi verða að gjöra svo vel og blása út úr þeim allt vatn.“

Segir hann að best sé að leita aðstoðar pípulagningamanna eða manna sem þekkja til.

„Þetta er svolítið okkar fag. Við getum gengið hreint til verks og gert það sem þarf að gera.“

Einnig segir Þorsteinn að tæma þurfi snjóbræðslur sem eru bara á afföllum af húsunum.

„Ef við missum hitann og það er að koma vetur og frost þá getur hellings tjón orðið hjá hverjum íbúðareiganda.“

Ekki eftir neinu að bíða

Þorsteinn segir að það þurfi að verja lokuð kerfi sem allra fyrst en að ekkert sé hægt að gera í sambandi við kerfin sem ekki eru lokuð fyrr en vatnslaust verður. Hann mælir þó með því að fólk tæmi snjóbræðslur í Grindavík sem fyrst enda sé ekki mjög snjóþungt þar.

Hann rekur fyrirtækið Lagnaþjónustu Þorsteins og segir fyrirtækið byrjað að taka að sér þessi verkefni.

„Ég er með langan lista hérna. Við erum í fyrirtækjunum núna en við sjáum um allt fyrir bæinn og verið er að skoða hvað þarf að gera þar.

Svo er ég með langan lista frá einstaklingum og eins allt fyrir Búmenn og svona. Við erum bara í þessu núna að hluta til með öðru – að reyna að verja eignir.

Ég mæli með því fyrir alla íbúa Suðurnesja að verja lokuðu kerfin sín til öryggis með því að setja frostlög inn á þau.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert