Um fimm tonn af þeim matvælum sem fundust í kjallaranum í Sóltúni 20 höfðu nýlega verið flutt til landsins. Telur heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur (HER) að matvælunum hafi verið ætlað til dreifingar og neyslu enda magnið verulegt.
Matvælunum hefur nú verið fargað en heilbrigðiseftirlitið taldi þau óhæf til neyslu. Þetta kemur fram í eftirlitsskýrslu HER.
Fyrirtækið Vy-Þrif var með geymsluna á leigu en eigandi þess er Davíð Viðarsson. Hann er einnig skráður eigandi Vietnam Market og á 40% hlut í WOKON Mathöll ehf.
Í skýrslunni er lítið gefið fyrir skýringar þrifafyrirtækisins um að matvælin hafi verið geymd þarna fyrir förgun. Eru þær sagðar ótrúverðugar með hliðsjón af gögnum málsins.
Eins og mbl.is fjallaði um í fyrradag hefur heilbrigðiseftirlitinu þó ekki tekist að fá staðfest að matvælunum hafi verið dreift.
Heilbrigðiseftirlitið lagði hald á mörg tonn af matvælum sem fundust í kjallara í húsnæði við Sóltún 20 í september. Kjallarinn var óhreinn og komust meindýr þar auðveldlega inn. Maturinn var talinn óhæfur til neyslu og var tekin ákvörðun um að farga honum.
Í eftirlitsskýrslum HER kemur fram að fulltrúi þrifafyrirtækisins hafi óskað eftir því að fá að nýta hluta matvælanna. Hann bað einnig um að fá að flytja matvælin annað en að hans sögn stóð til að farga hluta þeirra en fyrst þyrfti þó að flokka þau.
Þegar í ljós kom að það stæði ekki til boða bauðst hann til að útvega starfsmenn og gáma til að farga matvælunum. HER féllst á það og voru heilbrigðisfulltrúar viðstaddir förgunina sem átti að fara fram 29. september. Eftir að förgunin hófst þann dag leið þó ekki á löngu þar til upp komst að starfsmenn væru að koma mat undan, m.a. með því að kasta í nærliggjandi runna og setja ofan í bakpoka.
„Í ljósi þess að eiganda matvælanna var fulljóst að slík undanskot yrðu ekki liðin var greinilegt að þetta fyrirkomulag á förguninni myndi ekki ganga. Starfsmenn þeir sem voru við förgunina virtu skýr fyrirmæli að vettugi og að sögn eiganda einnig hans skýru fyrirmæli,“ segir í skýrslu HER.