Megn lykt og aflífa þurfti meindýr

Grunur var um að í kjallaranum væri verið að geyma …
Grunur var um að í kjallaranum væri verið að geyma matvæli án tilskilinna leyfa. Ljósmynd/Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkurborgar

Megn lykt af meindýrum var í kjallaranum við Sóltún 20 þar sem heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur komst á snoðir um matvælalager sem geymdur var við óheilsusamlegar aðstæður.

Rýmið var ekki meindýrahelt og voru alls staðar ummerki um meindýr. Þá fundust einnig lifandi og dauðar rottur og mýs á staðnum. Þetta kemur fram í eftirlitsskýrslum HER sem mbl.is hefur fengið afhentar.

„Meindýraspörð og meindýraþvag var víða um rýmið, upp á matvælakössum, ofan í ílátum og um allt gólf. Greinilegt var að meindýr höfðu nagað sig í gegnum matvælasekki því matvæli höfðu lekið úr þeim á gólfið,“ segir í eftirlitsskýrslunni.

Sum meindýranna lentu í gildrum sem búið var að koma fyrir í húsnæðinu og þurfti eftirlitið meðal annars að aflífa eina rottu sem var föst í gildru.

Vy-Þrif voru með kjall­ar­ann á leigu en Davíð Viðars­son, eig­andi þrifa­fyr­ir­tæk­is­ins, á m.a. Vietnam mar­ket og 40% hlut í WO­KON Mat­höll ehf. 

HER telur að matvælin í kjallaranum hafi verið ætluð til dreifingar.

Frá matvælalagernum að Sóltúni 20.
Frá matvælalagernum að Sóltúni 20. Ljósmynd/Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkurborgar
Matvælum á lagernum var fargað.
Matvælum á lagernum var fargað. Ljósmynd/Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkurborgar

Matur og búnaður

Heilbrigðiseftirlitið fór í eftirlit í kjallarann 27. september vegna rökstudds gruns um ólöglega geymslu matvæla þar. Grunur var um að í kjallaranum væri verið að geyma matvæli án tilskilinna leyfa.

Í eftirlitsskýrslu segir að fulltrúi Vy-þrifa, leigutaka húsnæðisins, hafi komið á staðinn og opnað húsnæðið. Var viðkomandi viðstaddur eftirlitið.

Nokkur tonn af matvælum blöstu við og voru þau ýmist geymd í sekkjum, kössum eða frystikistu. Voru a.m.k. 28 bretti með sekki og a.m.k. 26 bretti af matvælum í kössum. Þá voru 18 frystikistur í rýminu sem einnig voru fullar af ýmiss konar matvælum.

Verktakar sáu um að farga matvælum undir leiðsögn HER sem tók myndir af umbúðum matvæla og skráði niður magn sem fór í förgun.  

Grunur var um að í kjallaranum væri verið að geyma …
Grunur var um að í kjallaranum væri verið að geyma matvæli án tilskilinna leyfa. Ljósmynd/Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkurborgar

Kælar, bíldekk, dýnur og tjald

Í kjallaranum fundust einnig ýmis matvælaáhöld, borðbúnaður og eldunarbúnaður, stór suðupottur, panna, þvottavél, bíldekk, kælar, handklæði í pokum, stólar, borð ofl. Þá var einnig tjald og dýnur á staðnum.

Kjallarinn var óhreinn – gólf, veggir og búnaður, og megn lykt af meindýrum var í rýminu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka