Jarðskjálftahrina næturinnar kom í þremur hviðum. Hófst hrinan klukkan 00.02 og seinni tvær urðu klukkan 00.46 og 01.20. Fram kemur í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands að mikil spenna sé á svæðinu en ekki séu vísbendingar um gosóróa að svo stöddu.
Stærsti skjálfti næturinnar var 5 að stærð og varð hann klukkan 00.46. Hann er einnig sá stærsti sem mælst hefur frá því hrinan hófst 25. október.
Skjálftavirknin er dreifð milli Eldvarpa í vestri og austur fyrir Sýlingafell. Tæplega 300 skjálftar hafa mælst frá miðnætti.
Tilkynningar hafa borist um skjálfta víða af Reykjanesskaganum og upp í Borgarnes.
Dregið hefur úr virkninni frá klukkan tvö.
Áfram verður fylgst með stöðunni.